28.12.1916
Efri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

14. mál, nefnd til að íhuga verslunarmál og vöruflutninga

Flutnm. (Magnús Kristjánsson):

Tillaga þessi, sem hjer liggur fyrir um að skipa 5 manna nefnd, þarf eigi mikilla skýringa við. Þó vil jeg geta þess, að við flutningsmennirnir álítum þetta eina aðalástæðuna fyrir því, að þetta aukaþing er svo óvænt og á þessum tíma árs kallað saman, og er því nauðsynlegt að athuga þetta mál vandlega. Þetta hefir og verið gefið í skyn bæði af landsstjórninni og í blöðum, og hvergi mótmælt.

Jeg hefi ekki orðið var við neitt, sem hefir komið fram hjer í deildinni viðvíkjandi þessu máli, en neðri deild hefir fengið einhver skjöl þessu viðvíkjandi til meðferðar og þeim hefir verið vísað til viðskiftanefndar Nd., en mjer er ekki kunnugt um, hvað nefndin hefir gjört í þessu.

Okkur flutningsmönnunum þótti æskilegast, að þegar í þingbyrjun væri skipuð nefnd í báðum deildum til að athuga þetta, og til þess var líka full ástæða. Mjer finst einnig, að neðri deild hafi fengið eftirþanka at því, að þessi meðferð málsins hafi ekki verið sem allra formlegust, því nú hefir komið fram till. í Nd. að vísa þessu til nefndar þeirrar, er fjallaði um heimild landsstjórnarinnar til að tryggja aðflutninga til landsins, og verður að líta svo á, að þetta sé ekki fyr formlegt en að þessi tillaga hefir verið samþykt.

Eins og kunnugt er, hefir ekki legið fyrir þessari deild óþarflega mikið verkefni, en aftur má búast við, eftir því sem fram líður tíminn og mál verða afgreidd frá neðri deild. þá verði hjer ærið nóg að starfa, en jafnframt minkar starfinn í neðri deild. Leiðir af því, að mál verða litt rædd hjer, þá er fram á þingið líður. og er þá hætt við að þau verði afgreidd í flaustri. Jeg vænti því þess, að allir háttv. deildarmenn líti svo á, að það sje sjálfsagt og nauðsynlegt, að nefndin verði skipuð, eins og hjer er til ætlast.