06.01.1917
Efri deild: 13. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

37. mál, lánveiting til raflýsingar á Ísafirði

Flutnm. (Magnús Torfason):

Hefi sama sem engu að bæta við þær ástæður, sem fylgja tillögunni. Læt mjer nægja að vísa til gildandi fjárlaga, þar sem veittar eru 45000 kr. til fyrirtækisins. Hjer er því eigi að ræða um neina nýja lánbeiðni, heldur að eins breyting á ákveðinni fjárhæð, sem skoða mætti sem eðlilega dýrtíðaruppbót á þessum erfiðu tímum. Auk þess verður rafveitan dýrari meðfram fyrir það, að annað kauptún á að geta haft hennar not, en fyrir því var eigi gjört ráð í byrjun. Legg jeg því til að till., að umræðum loknum, sje vísað til fjárveitinganefndar.