28.12.1916
Neðri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Flutnm. (Matthías Ólafsson):

Jeg get ekki skilið tilganginn með ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), fyrst ákveðið hafði verið, að frv. skyldi ná að ganga í gegnum þingið. En svo að jeg snúi mjer að ræðu hans, þá fundust mjer rökin heldur lítil. Hann mintist á valdafíkn og talaði um Sigurða, sem langa mundi í tignina, og er ef til vill einn í þeirra tölu.

Hann mintist á þörfina og taldi hana enga, af því að stjórnin hefði nógu marga ráðunauta, sem hún gæti leitað til.

Það er hverjum manni með opin augun orðið auðsætt, að engum einum manni er nú orðið það lengur ætlandi að geta annað öllu, sem gjöra þarf í stjórnarráðinu, og sem ráðherra er ætlað að gjöra. Hann þarf að hafa vit á öllum þeim málum, sem þar geta komið fyrir. Hann þarf jafnt að bera skynbragð á kirkju og kenslumál sem dómsmálin og fjármálin. Slíkur maður, sem þessi, er ekki til hjá nokkurri þjóð í veröldinni, ekki hjá stórþjóðunum, hvað þá heldur hjá smáþjóð eins og okkur Íslendingum, og einmitt þess vegna hefir þetta orðið niðurstaðan hjá öllum þjóðum, að fela fleirum að fara með stjórnarstörfin.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) talaði mikið um það, að röksemdirnar fyrir þessu máli væru einkum það, að þessi ráðstöfun ætti að auka frið í landinu. Jeg get nú sagt honum það, að í athugasemdunum og ástæðunum, sem prentaðar eru með frv., er hvergi minst á frið einu orði, svo að jeg veit ekki hvað hann hefir fyrir sjer í þessu efni. Hitt er annað mál, að jeg tel það alls ekki vonlaust, að þetta geti heldur orðið til þess, að menn fremur verði sammála um deiluatriðin, og yrði það, þá teldi jeg það mjög vel farið.

Þá mintist háttv. þm. (S. S.) á þann kostnaðarauka, sem af þessu mundi leiða. Það er satt, að kostnaðarauki verður dálítill af þessari ráðstöfun, en ekki svo mikill, að taki því að tala um hann í samanburði við gagnið, sem af þessu gæti leitt. Það er gjört ráð fyrir, að kostnaðaraukinn, sem af þessari breytingu leiðir, mundi nema um 10 þús. kr., en sje það hugleitt, hve miklu gagnið af stjórninni verður að öllum líkindum meira, þá virðist tæpast orðum að því eyðandi, hve mikið kostnaðurinn eykst: Vjer erum víst allir á einu máli um það, að vjer viljum vera sjerstakt ríki, en vjer verðum þá jafnframt að gjöra ráð fyrir því, að það kosti oss eitthvað, og satt að segja finst mjer það vera til minkunar, að raddir skuli koma fram á Alþingi um það, að vjer höfum ekki efni á að kosta stjórn landsins, svo að í lagi sje. Slíkan barlóm sem þenna, væri æskilegt að heyra aldrei framar hjer á þinginu. Ef hægt er að benda á það með rökum, að stjórn landsins verði betri við það, að ráðherrum verði fjölgað, þá finst mjer ekki skifta miklu, hvort það kostar okkur 10 eða 20 þús. kr. meira eða minna.

Háttv. flutnm. brtt. á þgskj. 28 hugsa sjer, að ráðherrum verði fjölgað fyrst um sinn, en svo verði tvö embættin lögð niður að stríðinu loknu. Mjer finst þetta vera sagt út í bláinn. Það er ekki til neins að hugsa sjer, að nokkurntíma verði sá maður uppi með þessari þjóð, sem fær sje til að dæma einn um alla þá hluti, sem fyrir geta komið í stjórnarráðinu. Vjer höfum engan mann færan til þess sem stendur, og því síður mun það verða í framtíðinni. Land og þjóð er í stöðugri framför, og því meir sem framfarirnar aukast, því meir vaxa störfin í stjórnarráðinu og því meira ofurmenni mundi þurfa til að stjórna landinu, ætti hann að gjöra það einsamall. Þetta virðist því vera gjört út í bláinn og brtt. ekki hafa átt neitt erindi inn í þingið. Og sama má segja um alla ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Ræða hans var allsendis óþörf, því að tæplega getur hann búist við að breyta skoðun þingmanna í þessu máli, ekki veigameiri en rökin í ræðu hans voru. Og nú langar mig til að spyrja háttv. þm. (S. S.), hvort þetta sje skoðun hans, að ekki beri að fjölga ráðherrum. Hvernig stendur þá á því, að hann skyldi hafa tekið þátt í ráðstöfunum þess flokks, sem hann er í, um myndun þriggja manna ráðuneytis?

Jeg skal fúslega játa það, að það er böl að þurfa að fjölga embættum, en það er slíkt böl, sem allar smáþjóðir verða að sætta sig við. Það er fast lögmál hjá öllum þjóðum, að því strjálbygðara og fámennara sem landið er, því fleiri embættismenn þarf að tiltölu við fólksfjölda og tekjur. Munurinn getur jafnvel verið svo mikill á fjölmenni þjóðanna, að ekki sje neitt dýrara sumstaðar að hafa prest fyrir 5000 manns en 30—40 hjá okkur. Jeg get því ekki sjeð, að það sje vanþörf á að hafa 3 ráðherra að ófriðnum loknum. Störfin eru, eins og jeg hefi áður sagt, vaxin yfir höfuð einum manni. Jeg skal svo ekki orðlengja þetta meir, en benda háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) á, að það fer í bága við grundvallar-sparnaðarreglur hans, að vera að tefja tíma þingsins með því, að eyða orðum að þessu máli að nauðsynja- og gagnslausu, því það er þegar fyrirfram ákveðið um málið, að það skuli komast í gegnum þingið.