05.01.1917
Sameinað þing: 2. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

Stjórnarskipti

Forsætisráðherra (Jón Magnússon):

Sama dag og lögin um þriggja manna ráðuneyti voru staðfest af Hans Hátign konunginum, fjekk jeg símskeyti frá H. H. konunginum, þar sem hann óskaði þess, að jeg tæki að mjer forsæti í ráðuneytinu.

Í gær var hæstv. ráðherra, Einar Arnórsson, leystur frá embætti, og í gær barst mjer símskeyti, dagsett 4. þ. m., þar sem Hans Hátign konungurinn skipar mig fyrir forsætisráðherra, og þá bankastjóra og alþingismann Björn Kristjánsson, og bónda og alþingismann Sigurð Jónsson, fyrir ráðherra Íslands, og óskar að fá sem fyrst vitneskju um, hvernig ráðherrarnir skifti störfum með sjer, samkvæmt 1. og 2. gr. laga frá 2. þ. m.

Því hefir verið haldið fram af mörgum hjer á landi undanfarið, að fjölga þyrfti ráðherrum, og jeg býst við því, að fjölgun ráðherranna verði yfirleitt vel tekið. En að svo bráður bugur var að því undinn á þessu aukaþingi, og þriggja manna stjórn sett á stofn fyrirvaralaust, það hygg jeg aðallega gjört vegna Norðurálfuófriðarins og þess ástands, er af honum leiðir. Þess vegna er og þetta þriggja manna ráðuneyti samsett svo, sem raun er á orðin, þannig, að hver hinna þriggja aðalflokka þingsins eigi mann í ráðuneytinu, svo að það í heild sinni hafi, svo sem má, fylgi þingsins í heild, líkt eins og á sjer nú stað viða erlendis, einmitt af sömu orsökum.

Hingað til má yfirleitt segja, að hin mikla styrjöld hafi lítið komið við þetta land, nema því til hagsmuna. Ísland hefir eins og önnur hlutlaus lönd auðgast vegna ófriðarins. En nú horfa menn kvíðnir fram í tímann, því að út lítur fyrir, að mjög fari að þrengja að hlutlausum þjóðum hjer í álfu. Það er alstaðar farið að bóla á skorti á ýmsum nauðsynjum. Jafnvel í Ameríku, sem einkum 2 síðustu árin, hefir verið helsta forðabúr heimsins, er farið að tala um útflutningsbann á kornvöru, vegna skorts á henni þar. Flutningar landa á milli eru alt af að verða örðugri og örðugri; skipakostur minkar stöðugt. Þar af leiðandi einnig örðugra, að koma afurðum vorum á markað, fyrir utan aðra erfiðleika og hindranir frá ófriðarþjóðunum í þeim efnum.

Þar sem þessu er þannig háttað, þá er þess nú krafist af alþjóð manna, að Alþingi og landsstjórn gjöri þær ráðstafanir, er verða megi, svo sem unt er, til að firra landið vandræðum þeim, sem yfir þykja vofa.

Það er þá sjálfgefið, að hið fyrsta og helsta hlutverk hins nýja ráðuneytis, verður það, að vinna að því af fremsta megni, að firra landið vandræðum af ófriðnum. Þar til teljum vjer fyrst, að hafa vakandi auga á því, að landið sje birgt nauðsynjum, og að landsstjórnin gjöri sjálf, eins og gjört hefir verið hingað til, ráðstafanir til að birgðir sje fyrir hendi, og í sambandi við þetta, að reyna að sjá um skipakost til flutninga, bæði milli landa, og hafna milli innanlands; að vinna að því, að afurðir landsins komist í sem best verð, fái sem bestan markað, og að reyna, að fengnu leyfi Alþingis, að draga svo mikið úr vandræðum manna vegna dýrtíðarinnar, sem unt er. Hin daglegu störf stjórnarráðsins, eða framkvæmdarstarfið í stjórn landsins, viljum vjer ástunda að gangi sem greiðlegast.

Þegar annars kemur til undirbúnings löggjafarstarfa, fyrir utan fjárlög og þau önnur lög, sem leggja verður fyrir hvert reglulegt þing, þá getur ráðuneytið ekki lofað miklu að svo stöddu. Tíminn til undirbúnings undir næsta þing er svo afar stuttur, að ekki verður með sanngirni búist við neinni verulegri lagasmíð, er lögð verði fyrir það, fram yfir það sjálfsagða. Og um fyrirætlanir vorar í landsmálum yfirleitt, er örðugt að segja nú, eitt fyrir alla. Vjer komum hver frá sínum flokki, og höfum ekki haft tíma eða tækifæri til að kynnast skoðunum hver annars nógu nákvæmlega. Vjer höfum einlægan vilja á því, að vinna saman í eindrægni, og höfum heitið hver öðrum, að gjöra hver sitt til, að góð samvinna takist vor á meðal. En í byrjun næsta þings vonum vjer að geta látið uppi fyrirætlanir vorar og stefnu í landsmálum.