21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get verið stuttorður um ræðu háttv. 2. þm. Rang. (E. J.). Hann hafði ekki mikið nýtt fram að flytja, hjelt sjer aðallega við það, sem aðrir voru búnir að taka fram; að eins notaði hann sterkari orð og skemtilegri, enda hefir hann fengið hrós fyrir það að geta verið skemtilegur. Það, sem hann ásakaði stjórnina fyrir, var aðallega þetta:

1. Að hún hafi setta menn í embættum. Það hefir komið fram áður, að þetta muni ekki vera heppileg ráðstöfun. Jeg hygg þó, að á það megi líta frá nokkuð misjöfnum hliðum. Jeg held, að það verði að álítast varlegt og rjett að setja einmitt færa menn í vandamestu embættin um tíma, áður en þeir eru skipaðir. Það getur ekki álitist rjett, að settir menn finni ekki eins til ábyrgðar þeirrar, sem á þeim hvílir, eins og þótt þeir væru skipaðir. Það má ef til vill segja að þeir sjeu tregari til að ráðast í ráðstafanir, sem eiga að vera til frambúðar. Mjög algengt er, að menn sjeu settir í embætti um tíma, og jeg veit líka til þess, að sumstaðar er beint fyrirskipað í lögum, að ekki megi skipa menn í vandasöm embætti fyr en eftir reynslutíma.

2. Að stjórnin hafi farið illa að kaupmönnum. Jeg mótmæli því algerlega, að hún hafi sýnt þeim nokkurn þjösnaskap, nema ef það er rangt að hindra það, að kaupmenn selji vöru sína að eins til þeirra, sem geta borgað í stórum slumpum. Háttv. þm. (E. J.) komst í þessu efni í mótsögn við sjálfan sig, er hann fór að brigsla stjórninni um, að hún hefði selt sína vöru í stórkaupum. Jeg álít, að hvorki stjórnin nje kaupmenn megi gera það.

Út í ensku samningana ætla jeg ekki að fara. Jeg taldi þá ekki ámælisverða hjá fyrverandi stjórn, áleit, að hún hefði gert það, sem hún gat, og það, sem var skylda hennar að gera, eins og sakir stóðu. Þá held jeg, að ekki sje hægt að áfella stjórnina fyrir það, þótt ekki fengist hærra verð fyrir afurðirnar. — Um, að ekki hafi verið gætt nægilega hags landbúnaðarins, með því að senda fulltrúa fyrir hann, þá hefi jeg svarað því áður, og er þá svarað öllum aðfinslum háttv. 2. þingm. Rang. (E. J.).

Þá er athugasemd sú, er háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gerði, og skal jeg svara henni stuttlega. Hæstv. atvinnumálaráðherra hefir mest með þau mál að gera, og á jeg því erfiðara með að svara henni, en hann mun þá svara henni nánar. Jeg skal geta þess, að þingsályktunartillagan, sem þm. mintist á, var tekin aftur af þeirri ástæðu, að það þótti ekki fært, að varan væri flutt út til hjeraðanna á kostnað alls landsins. Það var meiningin með tillögunni, að flutningskostnaðurinn væri lagður á alla landssjóðsvöruna, eins og það væri verslunarkostnaður. En það hefði ekki verið hyggilegt, því að þá hefði varan orðið nokkuð dýr, svo dýr, að kaupmenn hefðu getað selt sína vöru dýrara en þeir þurftu, í skjóli landssjóðsverðsins. Það er því ekki ávirðing stjórnarinnar, þótt hún hafi ekki fylgt þessari reglu, því að Alþingi sjálft treysti sjer ekki til að fyrirskipa hana. Ef ástæður leyfðu það, að varan væri lögð upp úr skipinu, sem flutti hana til landsins, á einhverri höfn utan Reykjavíkur, þá var hún seld þar með því verði, sem hún kostaði hjer í Reykjavík. Ef þinginu hefði verið alvara með það, að stjórnin fylgdi hinni reglunni, þá hefði það átt að segja það hreint út. Það var ekki von, að stjórnin vildi taka á sínar herðar þá ábyrgð, að flytja vörur um land alt endurgjaldslaust. Það hefði verið beint tap fyrir landssjóð. Stjórnin leit svo á, og hlaut að líta svo á, að landssjóður ætti að reka verslun sína eins og hverja aðra verslun, svo að hann heldur græddi en tapaði á henni. Það getur orðið erfitt að fylgja þeirri reglu í framtíðinni. Þótt einhver gróði sje á versluninni nú, þá má búast við talsvert miklu tapi seinna, svo miklu, að ekki er að vita, hvort gróðinn muni hrökkva fyrir því. Jeg get því ekki kannast við, að aðfinsla háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) sje rjettmæt, þar sem engin fyrirskipun lá fyrir um þetta atriði frá þinginu.