03.09.1917
Efri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Magnús Torfason:

Jeg fór í fyrri ræðu minni ekki eins út í ýms atriði og jeg hefði ella gert, af því að hæstv. stjórn hafði ekki tíma nje tækifæri til að vera við.

Það, sem jeg tók fram, voru engar árásir nje ádeilur á stjórnina, heldur fram komið sakir nauðsynja hjeraðs þess, sem jeg er þingmaður fyrir.

Svo að jeg snúi mjer að hæstv. atvinnumálaráðherra, þá verð jeg að segja það, að hann reyndi yfirleitt ekkert til að svara því, sem var mergur málsins í ræðu minni, því, að landsstjórnin yrði að sjá um, að sjávarútvegur landsmanna færi ekki í kalda kol. Hann að eins drap á þetta, en hann svaraði því ekki að neinu leyti, og hið sama er að segja um hæstv. forsætisráðherra, en af orðum hans var helst að heyra, sem hann áliti, að sjávarútvegurinn yrði sjálfur að sjá sjer farborða. Í sambandi við það drap hann á, að landssjóður mundi tapa miklu á landsversluninni í lok ófriðarins, en um það er ilt að spá, ekki víst, að vörur falli jafnmikið eða jafnskjótt í verði og hann býst við. En jeg vil slá því föstu, að það, hvort landssjóður tapar í lok ófriðarins eða ekki, er ekkert aðalatriði, heldur er og verður aðalatriðið, að atvinnuvegir landsins eyðileggist ekki, því að þá er eyðilagður grundvöllurinn fyrir öllum tekjum landsins í framtíðinni.

Jeg skal ekki fara út í ummæli hæstv. forsætisráðherra um saltið til Ísafjarðar; það hefir áður verið talað um það hjer í háttv. deild, og svaraði jeg því þá, er fram kom, en vegna þess, að hann var að tala um saltþörfina annarsstaðar, skal jeg taka það fram, að hún var ekki meiri en svo, að það átti að nota eitthvað af saltinu til þess að salta með kjöt nú í haust. Læt jeg þetta nægja hjer um.

Í skipakaupum stjórnarinnar eru ýms atvik, er benda á það, að hún sje heldur seinfara, og þótt mjer sem þm. hafi verið fyrirmunað að sjá skýrslu þá, er stjórnin hefir gefið bjargráðanefndinni, þá hygg jeg, að jeg megi fullyrða, að hún sanni að svo sje. En svo er annað atvik, er bendir til, að stjórnin sje seinfara. 10. apríl þ. á. sendi bæjarstjórn Ísafjarðar stjórninni símskeyti um, að þar væri yfirvofandi saltleysi, og þessi saltbeiðni var endurnýjuð 4 sinnum í sama mánuðinum. Samt liðu yfir 100 dagar þar til Ísfirðingar fengu lítinn hluta af saltfarmi. Jeg er ekki að leggja neinn harðan dóm á stjórnina fyrir þetta, en jeg vil ekki heldur gefa landsstjórninni neina syndakvittun fyrir það.

Þá sný jeg mjer að hinu atriðinu, um kaup á steinolíu þeirri, er Steinolíufjelagið flutti, en um það hefi jeg ekki fengið neitt svar. Það hefir verið reynt að svara því með því, að stjórnin hafi ekki tekið vörur af kaupmönnum, og ber þá líklega að skilja það svo, sem það sje stefna stjórnarinnar að taka ekki neinar vörur af kaupmönnum til almenningsnota, hversu sem á stendur.

Þetta þykir mjer harla einkennilegt. Það vita allir, að stjórnir ytra gera það iðulega, þegar birgðir vantar, og það þarf ekki að fara lengra í því efni en til bræðra vorra Dana. Þeir taka hverja vörutegundina á fætur annari eignarnámi, og það er mikið millibil á milli þess að taka allar vörur allra kaupmanna eða að taka ekkert af þeim. — Stjórnin hefir og fulla heimild til að gera það, og í vetur var ýtt undir hana með að nota þetta vald sitt, og jeg held, að hjer hafi verið ástæða til þess, steinolíuvandræðin almenn, og hjer átti sá hlut að máli, sem landsstjórnin gat ekki borið neitt traust til að úthlutaði steinolíunni, svo að vel væri.

Annars er erfitt fyrir mig að skilja það, hversu flöt stjórnin virðist hafa legið fyrir hinu svo nefnda íslenska Steinolíufjelagi, sem hún þarf ekki á nokkurn hátt að taka hið minsta tillit til, og mjer er óhætt að fullyrða, að landsmenn hefðu æskt þess, að stjórnin notaði þar harðar hendur. Stjórnin hefir látið það átölulaust, að Steinolíufjelagið hefir látið gæðinga sína fá olíu í stórum skömtum, en svo verður allur almenningur að fara bónarleið að því að fá olíu, og svo hefir stjórnin liðið það, að Steinolíufjelagið setur upp að stórum mun verðið á olíunni. Fyrst átti tunnan að kosta 67 kr., en áður en nokkurn varði er hún komin upp í 73 kr., og fyrir þessu er færð sú hlægilega ástæða, að Steinolíufjelagið hafi gleymt að reikna tunnuverðið!

Þetta er ástæða, sem bágt er að trúa, að kaupmenn geti fengið sig til að bera fram, og allra síst eins verslunarvant fjelag og hjer er um að ræða.

Eftir steinolíureglugerð þeirri, sem gefin var um þetta leyti, var hjeraðsvöldum gefinn rjettur til að taka olíuna, en það gátu þau ekki gert, nema að borga þeim, sem áttu hana, bæði það, sem hún kostaði og sæmilegan kaupmannsgróða að auki. Þau urðu því að knjekrjúpa kaupmönnum og gera við þá samninga.

Afleiðingin af þessu varð sú, að steinolíutunnan, sem upphaflega kostaði hjer 67 kr., kostaði vestur á Ísafirði 92 kr.

Að vísu var það nokkuð misjafnt, vegna þess, að það er misjafnt, hve mikið kaupmenn vilja vera þektir fyrir að taka af almenningi. Og til voru kaupmenn, sem seldu hana þar fyrir 85 kr.

Jeg segi fyrir mitt leyti, að jeg á erfitt með að skilja, hvers vegna stjórnin fór svona að, og ljet Steinolíufjelagið leika svona á sig.

Jeg hafði ímyndað mjer, að ástæðan hafi verið sú, að hún hafi trúað Steinolíufjelaginu ofvel, búist við, að það hagaði sjer eins og aðrir viðskiftamenn þess.

En nú verð jeg, eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra, að trúa því, að það sje bein stefna stjórnarinnar að taka enga vöru af kaupmönnum.

Ef til vill er það ekki heldur neitt undarlegt, þar sem kaupmenn hafa átt tvo fulltrúa í stjórninni. Vald þeirra er líka sterkast hjer í Reykjavík, og eins og kunnugt er þá er kaupmannastjettin allra stjetta frekust aðgöngu og átti hægast með að liggja í eyrum stjórnarinnar.

Nú þykist jeg vita, að hæstv. stjórn muni svara því, að misjafnar skoðanir sjeu á því, hve eftirlát hún hafi verið kaupmönnum, og svo mikið er víst, að í háttv. Nd. var henni láð það, að hún legði þá í einelti.

En það er síður en svo, að ástæða sjé til þeirra ummæla.

Það er alkunna, að það voru einmitt kaupmennirnir, sem drógu allan mátt úr atburðum fyrverandi stjórnar til að birgja landið að vörum. Og margt bendir til þess, að kaupmenn hafi líka dregið úr bjargráðatilraunum núverandi stjórnar. En út í þá sálma ætla jeg ekki að fara langt í þetta sinn.

Yfirleitt verður því ekki neitað, að stjórnin hefir allmjög dregið taum kaupmanna og farið að þeirra ráðum.

Er þar um stefnumun að ræða, sem hefir haft víðtæk áhrif á alla landsverslunina. Hún er vitanlega ekkert annað en samvinnufjelag allra landsmanna, og því var sjálfsagt að stjórna henni eftir þeim reglum, sem um samvinnuverslun gilda. En í þess stað byrjar þáverandi stjórn á því að fela verslunina uppalningi einhverrar örgustu einokunarverslunarinnar hjer á landi. Og var þar með stefnan mörkuð.

En núverandi stjórn hefir ekki bætt úr skák. Hún átti völ á einum af bestu mönnum samvinnufjelaganna, forstjóra eins reyndasta kaupfjelagsins, í sína þjónustu, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum tók hún ekki því boði.

Um það er jeg og sannfærður, að stjórnin hefir líka orðið af öðrum ágætum verkamanni, einmitt af því, að hún tók ekki því boði.

Enginn vafi er á því, að þetta hefir orðið til stórskaða fyrir landsverslunina, og þó til enn meiri skaða fyrir samvinnufjelögin hjer á landi, og er það illa farið, því að annar fjelagsskapur hefir ekki orðið heillavænlegri fyrir þetta land.

Ef hæstv. stjórn hefði snúið sjer í þá átt, hefði hún getað stuðst við þá reynslu og þekkingu, sem þar var fengin. En eigi þarf að lýsa því, hver styrkur samvinnufjelögunum hefði orðið að því að geta hagnýtt sjer reynslu landsverslunarinnar. Síðar hefðu samvinnufjelögin aftur grætt á þeirri reynslu, sem fæst við landsverslunina, og þetta þannig orðið til styrktar á báðar hliðar.

Þessi orð mín á ekki að skilja svo, sem jeg sje andvígur innlendri kaupmannastjett. Jeg hefi áður í öðru sambandi fengið tækifæri til að lýsa skoðun minni í þeim efnum, og munu þau orð mín ekki bera neinn vott um kala til þeirrar stjettar.

En jeg held því fram, að það hafi verið afaróheppilegt hjá hæstvirtri stjórn að ganga alveg fram hjá samvinnufjelagsskapnum.

Jeg hefi minst á þetta sakir þess, að stutt var á samvinnustefnuna í háttv. Nd.

Kaupmenn og kaupfjelög eiga að fá að þróast í friði og frjálsri samkepni.

Og landsverslunin er ekki annað en samvinnukaupfjelag, sem á að starfa í frjálsri samkepni við kaupmenn og kaupfjelög.

Þau orð hæstv. forsætisráðherra, að stjórnin sjái sjer ekki færar leiðir til þess að styðja og halda uppi sjávarútvegi landsins, gefa mjer ástæðu til þess að beina þeirri alvarlegu áskorun til hæstv. stjórnar, að hún grípi til þeirra ráða, sem duga mega, til þess að halda uppi atvinnuvegum landsins. Geri hún það ekki, bakar hún sjer ábyrgð, sem aldrei verður fyrirgefin.

Þótt landssjóður verði skuldugur, þegar jeli því ljettir, sem nú fer yfir, þá mun hægt að bæta úr því, ef atvinnuvegirnir standa rjettum fótum.

Jeg vil taka það fram, að orð mín ber að eins að skoða sem varnaðarorð, enda á stjórnin hjer vini í hverju horni. (Atvinnumálaráðh.: »Vinur er sá, er til vamms segir«). Já, jeg vil gera það að mínum orðum.