18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

64. mál, tollalög

Pjetur Jónsson:

Þegar á að þoka upp tollum, er hætt við því, að ávinningurinn verði ekki eins mikill og til er ætlast, því að ætíð er þá hætt við, að menn víki sjer undan kaupum, ef tollurinn er hár, og þá einkum er varan er ekki lífsnauðsyn. Það er hægra að tolla lífsnauðsynjar, sem menn geta ekki án verið. Get jeg því verið efablandinn um, að þetta frv. nái tilgangi sínum.

Milliþinganefndin í skattamálum 1908, er fjallaði um beina og óbeina skatta, komst að þeirri niðurstöðu, að varhugavert væri að þoka tollunum hærra en nefndin gerði þá, einmitt af því, að það hefði ekki tekjulega þýðingu fyrir landssjóð.

Jeg vildi benda á þetta og þá um leið, að spurning er um, hvort þessi hækkun, ef hún yrði veruleg, ætti að vera nema bráðabirgðahækkun, einskonar neyðarúrræði meðan á ófriðnum stendur. Það hefir að vísu komið fyrir, að slík bráðabirgðahækkun hefir síðar verið lögfest til frambúðar.

Enn fremur gæti komið til álita, hvort heldur ætti að hafa hækkunina í aurum af hverju kg., eða hundraðsgjald, t. d. 30—40% eða svo á núverandi tolli.