18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

64. mál, tollalög

Jörundur Brynjólfsson:

Að eins örstutt aths. áður en málið fer til nefndar. Jeg vildi gjarnan, að öllu meiri hækkun yrði sett á vindlinga. Mjer er illa við þá. Jeg veit, hverjir mest nota þá, og veit af eigin reynd, hvaða verkanir þeir hafa. Það eru sjerstaklega unglingar í kaupstöðum, sem kaupa þá og reykja. Það er óþörf eyðsla, og það sem verra er, neysla þeirra skemmir unglingana. Jeg bendi ekki á þetta í því skyni að auka enn meir tekjur landssjóðs, heldur ef verða mætti til þess, að neysla vindlinga yrði minni með enn meiri hækkun á tollinum.

Um hin atriðin skal jeg ekki fjölyrða. Jeg er á líkri skoðun og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) um öl. Það hefir sína þýðingu, þegar mjólk skortir. Með mjög háum tolli yrði mönnum gert óþarflega erfitt að bæta úr þeim skorti.