01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

64. mál, tollalög

Frsm (Þórarinn Jónsson):

Eins og hv. deild er kunnugt hafa háttv. flutningsmenn þessa frv. borið það fram í því skyni að fá auknar tekjur landssjóðs. Nefndin leit líka svo á, að það væri aðalatriðið, og bygði á því, en hitt er aukaatriði, hvernig litið er á einstaka tollstofna eða vörur, hvort þær að einhverju leyti geti skoðast sem þarflegar. Það atriði mun valda því, að hv. þm. Barð. (H. K.) skrifaði undir nál. með fyrirvara, en óvíst er, hversu víðtækt það er. Jeg hygg, að það muni aðallega eiga við ölið, og fjölyrði ekki meir um það, fyr en að jeg heyri ástæður hv. þm. (H. K.).

Nefndin hefir athugað, hvað ynnist við það, að frv. yrði að lögum. Eftir hagskýrslum frá hagstofu Íslands hefir þetta flust inn árið 1916 af þeim vörum, sem gert er ráð fyrir í frv.:

Öl 302,000 lítrar,

10 au. tollhækkun á lítra verður alls kr. 30,200

Límonaði 2419 lítrar,

10 au. tollhækkun á lítra verður alls — 242

Brjósts. & konfekt 23525 kg.

45 au. tollhækkun á kg. verður alls ..... — 10,585

Tóbak 106499 kg.,

1 kr. tollhækkun á kg. verður alls — 106,499

Vindlar 21000 kg.,

80 au. tollhækkun á kg. verður alls — 16,800

________________________

Samtals . . kr. 164,326

Þetta verður því samtals hjer um bil 164 þúsund kr. á ári. Það er þó auðvitað á eitt að líta, sem sje það, að innflutningur minkaði á sumum þessum tegundum, sjerstaklega þeim, sem einnig eru búnar til hjer á landi, ef tollurinn hækkaði. Því er víst varla svo varið með ölið, því að það öl, sem búið er til hjer á landi, þykir lítt drekkandi. Þegar enn fremur er litið á, að innflutningur á brjóstsykri var árið 1916 helmingi meiri en árið áður, þarf varla að gera ráð fyrir, að innflutningur á þeirri vöru lækkaði mikið, þótt tollurinn yrði hækkaður. Nefndin hefir leyft sjer að koma með 2 brtt., sem prentaðar eru á þgskj. 206. Sú fyrri fer fram á að lækka tollhækkunina á brjóstsykri úr 0.70 niður í 0.45 kr., en sú síðari, að sódavatn verði undanþegið tollhækkun. Það munar hvort sem er svo litlu, að nefndin sá ekki ástæðu til að leggja sjerstaklega á það. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um málið að sinni.