01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

64. mál, tollalög

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Hv. þm. Barð. (H. K.) Vildi ekki telja tóbak góðan tollstofn. Það hefir þó lengst af verið álitið, að þá vöru mætti tvímælalaust telja óþarfa vöru, og þær eru og hafa verið álitnar bestir tollstofnar. Mjer þykir einkennilegt, að hann skyldi taka vindlinga undan, því að ef aðrar tóbakstegundir eru nauðsynjavara, get jeg ekki annað sjeð en að vindlingar sjeu það líka, því að hv. þm. (H. K.) telur það einu ástæðuna fyrir því, að tóbak sje nauðsynjavara, að menn hafi vanið sig á að brúka það. Um þetta getur ekki verið ágreiningur.

Öl mætti nokkuð fremur skoða að örlitlu leyti sem nauðsynjavöru, ef það gæti komið í stað mjólkur handa þurrabúðarmönnum. En ef maður ætti að skoða það svo, yrði það að vera notað alment í sjóplássum og verstöðum kringum land, ekki síður en í kaupstöðum og kauptúnum, en svo er nú ekki. Menn neyta þess aðallega eða eingöngu til gamans eða nautnar, en ekki sem matar eða nauðsynjavöru. Það mætti líta öðruvísi á þetta, ef þurrabúðarmenn alment neyttu öls, en þeir láta sjer nægja til drykkjar sýrublöndu eða vatn. Og jeg held, að ekki væri verra fyrir kaupstaðarbúa að fá sýrukvartel ofan úr sveit og drekka sýrublöndu í stað öls. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um fyrirvara háttv. þm. Barð. (H. K.).