03.09.1917
Efri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi ekki tekið þetta sem ákúrur til stjórnarinnar, hvorki orð háttv. þm. Ísaf. (M. T.) nje orð háttv. þm. Ak. (M. K.). En jeg verð að leyfa mjer að segja, að vandlifað sje fyrir stjórnina. Í háttv. Nd. er hún sökuð fyrir að hafa níðst á kaupmönnum, en hjer fyrir að hafa hossað þeim og í hávegum haft, og fyrir að hafa lagst á samvinnufjelögin. En hún hefir hvorugt gert, heldur reynt að þræða hinn gullna meðalveg og látið kaupmenn og kaupfjelög þróast í friði, eins og háttv. þm. Ísaf. (M. T.) komst fagurlega að orði. Þess vegna fær hún líka árásir frá báðum hliðum.

Stjórnin hefir haft þá reglu að láta kaupmenn í friði og lofa þeim að draga að vörur eftir megni, og ekki viljað taka af þeim vörur. Þess vegna vildi hún ekki heldur taka hörðum höndum á Steinolíufjelaginu, því að hún leit svo á, að mikið riði á því, að það dragi að olíu sem mesta og sem fyrst. Að ákveða verð vörunnar heyrir verðlagsnefnd til. Jeg get ekki heldur fundið neinar sjerstakar ástæður til þess að taka olíuna nú.

Olíuskortur er ekki tilfinnanlegur sem stendur og olíuskip stjórnarinnar er farið frá New-York, og mun þess ekki langt að bíða, svo að ekki lítur út fyrir nein vandræði með þá vöru fyrst um sinn.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að æskilegast hefði verið, að allir hefðu verið ánægðir með gerðir stjórnarinnar í verslunarsökum. Það er fagurlega mælt, en fáum mun hafa komið til hugar, að svo yrði; að minsta kosti hafði sjálf stjórnin engar vonir um það.

Sami háttv. þm. (M. T.) benti á það, til sönnunar seinlæti stjórnarinnar, að Ísfirðingar hefðu pantað salt 10. apríl, en ekki fengið það fyr en eftir 100 daga. Slíks munu vera fleiri dæmi; að minsta kosti kemur það oft fyrir, að kaupmenn fá ekki pantanir sínar fyr en eftir mjög langan tíma.

Aldrei voru það mín orð, að stjórnin vildi ekki styðja og styrkja atvinnuvegi landsins eftir besta megni, en hitt er annað mál, að hún getur ekki ábyrgst sjávarútveginum nægt salt og kol. Og vandi mun úr að ráða, ef það er satt, sem borist hefir til eyrna stjórninni, að útgerðarmenn mótorbáta muni telja sig neydda til að hætta útgerðinni, ef þeir fá ekki salt fyrir 150 kr. tonnið og olíu fyrir 50 kr. fatið.

Jeg veit ekki, hversu þakklátir þeir mundu verða stjórninni, ef hún kaupir salt fyrir 300 kr. tonnið og olíu fyrir 100 kr. fatið, eða, með öðrum orðum, við svo háu verði, að ekki sje hægt að nota það. Jeg veit til þess, að útgerðarmenn hafa nú ekki viljað þessa vöru, þó að hægt hafi verið að fá hana með miklu lægra verði.

Jeg held, að jeg þurfi ekki að svara þessu frekar. Jeg skal að eins taka það fram, að það er sjálfsögð skylda stjórnarinnar að reyna að útvega sjávarútveginum þessa vöru, ef hægt er, eins og stjórnin hefir reynt að undanförnu.