06.09.1917
Efri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

64. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi ekki breytt þeirri skoðun minni, er jeg hefi áður haldið fram í þessari hv. deild, að rjett sje að hækka tollinn af tóbaki. Jeg sje ekki ástæðu til að endurtaka röksemdir mínar, en vil þó geta þess, að mjer finst rjettmætara að tolla tóbak, þótt margir álíti það nauðsynjavöru, heldur en eiginlegar nauðsynjavörur.

Þótt mönnum falli það illa að leggja aukinn toll á þessa vöru, verða menn þó að gæta þess, hvernig fjárhag landsins er komið. Það er ekki ætlun mín að gefa neitt yfirlit yfir fjárhaginn, en jeg vil að eins benda á, að í fjárlagafrv., eins og það var samþykt í háttv. Nd., er 700,000—800,000 kr. tekjuhalli, og sá tekjuauki, sem landinu veitist með ýmsum frv., sem nú liggja fyrir þinginu, nemur ekki miklu. Jeg geri ráð fyrir, að tekjuskattsfrv. verði einnig samþykt hjer í háttv. deild, og myndi sá skattur ekki gefa af sjer meira en 100,000 kr. Burðargjaldsfrv. er óvíst hvort samþykt verður, en það myndi veita um 80,000 kr. tekjuauka. Ekki er mjer kunnugt um, hve mikið verðhækkunartollurinn muni gefa af sjer, enda er ekki áreiðanlegt, að það frv. nái fram að ganga. Vitagjaldshækkunin mun ekki nema meiru en 5—6000 kr., þar sem siglingar til landsins eru nú svo litlar.

Þegar þess er gætt, að landssjóður er bundinn á allar hliðar, en þarf hins vegar á miklu fje að halda, þá skilst mjer, að háttv. deild þurfi að athuga það vandlega, hvort hún vilji vera of ólm að skera niður öll þau frv., sem fara fram á aukna tolla.

Jeg vil því mælast til, að háttv. deild samþykki frv. óbreytt, eins og háttv. Nd. hefir gengið frá því. Jeg hefi ekkert sjerstaklega að athuga við 1. brtt. á þgskj. 751, ef jeg væri ekki hræddur um, að samþykt hennar gæti orðið frv. að falli.