12.09.1917
Sameinað þing: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

64. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hygg, að háttv. þing ætti að fara mjög varlega í það að fella þau frv., er fara fram á tekjuauka fyrir landssjóð. Að eins eitt tekjuaukafrv. hefir þegar verið afgr. Það er hækkunin á vitagjaldinu. En þar er að eins um mjög óverulegan tekjuauka að ræða, eða jafnvel alls engan fyrst um sinn, meðan siglingar teppast af völdum ófriðarins. Enn eru á ferðinni tvö tekjuaukafrv., en mjög er óvíst um afdrif þeirra. Þau eru frv. um aukinn tekjuskatt og hækkun á burðargjaldi. Og þótt þau yrðu bæði samþ., myndi síst veita af því, að þetta frv. yrði einnig samþ., þar sem um svo mikinn tekjuauka er að ræða. Margir líta svo á, að menn geti ekki verið án tóbaksins — það sje nauðsynjavara —, en þegar meta á, hvort fremur skuli leggja á þessa vöru en eiginlega nauðsynjavöru, þá er jeg hræddur um, að niðurstaðan verði sú, að fremur skuli tolla tóbakið.

Ekki mun sjerstök ástæða til að óttast, að tollsvik muni færast í vöxt, verði frv. þetta að lögum, enda tollurinn áður svo hár, að næg var freistingin fyrir þá, sem tilhneiginguna höfðu til tollsvika. Að fátæklingar neyti meir tóbaks en efnamennirnir hygg jeg ekki rjett. Efnamenn munu þvert á móti vera meiri tóbaksneytendur.

En aðalatriðið fyrir mjer er það, að tekjuhallinn í fjárlagafrv. og fjáraukalaga er alt að 1 miljón. Við það bætist allmikil fúlga, verði frv. um dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunarmönnum landsins og till., sem borin hefir verið fram í háttv. Ed., um að selja kol undir verði, samþ. Á hinn bóginn hefir lánstraust landsins verið allmjög notað vegna vörukaupa og skipa, og nemur sú fúlga allmiklu, eins og kunnugt er. Þegar á alt þetta er litið, finst mjer, að þingið megi fara varlega í að fella tekjuaukafrv. Og þar sem enn er óvíst um afdrif þeirra tveggja frv., er jeg nefndi áðan, en mjer finst þessi tollstofn hins vegar ekki ósanngjarn, vil jeg fastlega mæla með því, að brtt. verði samþ.