12.09.1917
Sameinað þing: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

64. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Satt að segja, hefir mjer fundist, að hjer væru sungnir fullmargir lofsöngvar yfir tóbakinu. Þótt jeg sje sjálfur tóbaksmaður og þyki gott að reykja, hefi jeg altaf verið á þeirri skoðun, að best sje að gera sem minst að því, og tel jeg það því til bóta, ef einhver yrði til þess að minka þá nautn við sig. Og jeg lít svo á, að þeir, sem vilja eyða fje sínu í slíkt, sjeu ekki ofgóðir til þess að greiða tollinn.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) þótti það ósamkvæmni hjá mjer að vera með þessari brtt., en hafa þó greitt atkv. móti till. í gær, sem fór fram á að leyfa sölu á Kínalífs-elixirnum.

En hjer er um tvent ólíkt að ræða. Og auðvitað má fara fram á að afla landinu tekna á margan þann hátt, sem mjer væri ómögulegt að fylgja.

Ástæður mínar fyrir því að vera á móti till. í gær voru fyrst og fremst þær, að eftir áliti þeirra, sem vit hafa á, meðal annara landlæknis, þá er lyf þetta engu nýtt og jafnvel skaðlegt.

Það hefir oft komið fyrir, að menn hafa reitt sig á lyfið, í stað þess að sækja lækni, og haldið, að þaðan væri hjálparinnar von, en alt svo orðið um seinan.

Allir hljóta nú að sjá, hvílík fjarstæða það er, að Alþingi hvetji menn til að kaupa lyf, sem að áliti þeirra, er vit hafa á heilbrigðismálum, er með öllu gagnslaust og getur verið hættulegt fyrir heilsu manna.

Með þessu móti á að afla 40,000 kr. tekna, en til þess að fá þær tekjur verða landsmenn að blæða í hreinum hjegóma, eða jafnvel í skaðlega hluti, miklu hærri upphæð en tollurinn er sjálfur. Jeg get ekki skilið, að nokkur stjórn sjái sjer fært að afla tekna með slíku móti.

En ofan á alt þetta bætist, að elixirinn inniheldur svo mikið áfengi, að það væri bannlagabrot að selja hann. Jeg held því, ef litið er á mál þetta með sanngirni, þá geti það ekki talist nein ósamkvæmni, þótt jeg greiði atkv. með tóbakstollinum nú, en á móti Kínalífs-elíxirnum í gær.