12.09.1917
Sameinað þing: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

64. mál, tollalög

Sigurður Stefánsson:

Jeg verð að taka undir ummæli hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), að það verður að fara allar færar leiðir til að afla landssjóði tekna, og mjer finst það skylda háttv. fjármálaráðherra (S. E.) að stuðla að því, að svo sje gert.

Andmælendur þessarar brtt. tala um tóbakið eins og það væri hrein og bein nauðsynjavara. Jeg minnist ekki, að jeg hafi heyrt slík ummæli fyr á þingi, enda hafa þau ekki við neitt að styðjast. Það geta allir vanið sig af tóbaki, en það getur enginn vanið sig af notkun nauðsynjavöru, þ. e. a. s. fæðu fyrir líkamann. Jeg segi þetta svo að allir geti sjeð, að hjer er alt öðru máli að gegna en um nauðsynjavöru.

Þá halda andmælendurnir því fram, að þetta muni auka tollsvik. Það er nú ekki nein ný mótbára; hún hefir altaf kveðið við þegar tollar hafa verið hækkaðir, og skal jeg ekki neita, að hún hafi við dálítið að styðjast. En það hefir samt altaf farið svo, að landssjóður hefir grætt á tollhækkunum. Þetta vita allir háttv. þm. Og ef það væri rjett, að menn hræddust þetta svo mjög, þá vil jeg benda á, að í frv. er hækkaður mjög tollur, t. d. af vindlum, svo að þar geta tollsvikin fullkomlega komist að, enda munu neytendur þeirra, kaupstaða- og kauptúnalýðurinn, engu ólíklegri til þess að brjóta lögin en hinir, sem einkum brúka nef- og munntóbak, og andmælendur brtt. bera mest fyrir brjósti.

Enn fremur má benda á það, að samþykt hefir verið frv., sem nú er orðið að lögum frá Alþingi, um aukna tollgæslu í Reykjavík, og mest af þessum vörum er flutt hingað.

Með þeim tekjum, er fengjust með þessari brtt., mætti bæta úr miklu brýnni þörfum en tóbaksþörfin er, þörfum á brýnustu lífsnauðsynjum hjá hinum fátækustu limum þjóðfjelagsins, og er það mikilsvert atriði á þessum vandræðatímum.

Að ekki sje hægt að venja sig af tóbaki þarf enginn að segja mjer. Jeg var ákaflega mikill reykingamaður og reykti svo mikið, að heilsu minni var hætta búin, en jeg vandi mig af því á einni viku. Það liðu svo 3 ár, að jeg neytti einkis tóbaks, en þá fór jeg, mest af rælni, að taka í nefið, sem jeg geri enn, en jeg get vanið mig af hve nær sem vera skal.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) tók það fram um Kínalífs-elixírinn, að engin stjórn gæti verið þekt fyrir að greiða atkvæði með því að leyfa sölu hans. Þetta finst mjer höggið nærri hæstv. atvinnumálaráðherra, því að hann greiddi, sem jeg tel honum til hróss, atkvæði með honum. Finst mjer, að hjer höggvi sá, er hlífa skyldi.

Hjer er alt öðru máli að gegna en um flest tekjufrumvörp, sem hafa verið borin fram nú á þinginu. Hjer er ekki um það að ræða að leggja skatt á atvinnuvegi eða framleiðslu landsins, og því er frv. þetta ekki í neinu sambandi við frv. þau, er hafa verið feld. Jeg hefi samt greitt atkvæði með öllum frv., sem hafa miðað til þess að auka tekjur landsins, nema 100% gjaldhækkun á sjávarafurðum. Jeg hefi ekki gert þetta vegna þess, að mjer hafi það altaf verið ljúft, heldur vegna þess, að jeg tel þess brýna þörf að afla landssjóði meiri tekna, og jeg hygg, að allir háttv. þm. sjeu mjer samþykkir í hjarta sínu, þótt þeim hins vegar gangi oft örðugt að sýna það í verkinu. Flest tekjuaukafrumvörp hafa verið feld að þessu sinni, og er það ekki nema eðlilegt, þegar litið er til þess, að þau eru fram borin af einstökum þingmönnum lítt hugsuð eða undirbúin. Þetta horfir alt öðruvísi við ef stjórnin undirbýr málin, áður en þau koma til kasta þingsins; þá verða allir að játa, að þá eru miklu meiri líkur fyrir því, að vel sje vandað til undirbúnings málanna og þau nái fram að ganga. Hjer ber því alt að sama brunni, að það er stjórnin, sem verður að hafa og á að hafa frumkvæði til allra þeirra mála, sem verslun snerta og fjárhag landsins. Geri hún það ekki, þá vanrækir hún skyldu sína. Jeg er ekki að segja þetta núverandi stjórn til ámælis; hún er ung í sessinum og hefir haft miklu starfi að gegna síðan hún tók við, en jeg tek þetta fram sem almenna athugasemd. Og örlög þau, er tekjuaukafrv. hafa hlotið nú, ættu að vera góð bending fyrir hæstv. stjórn að búa slík mál sem best undir þingið framvegis. Og þegar málin eru lögð fyrir þingið strax í byrjun þess, þá hafa þingmenn miklu betri tíma til að athuga málið heldur en þegar því er dembt inn í þingið, má ske í mesta annatíma þess.

Jeg greiði því atkv. með brtt. og þessu frv., af því að jeg tel brýna þörf á að auka tekjur landssjóðsins og þennan tollstofn einna sjálfsagðastan af öllum tollstofnum, sem vjer höfum.