08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Frsm. fjárhagsnefndur (Halldór Steinsson):

Það þarf engan að furða á því, þótt útlitið sje ekki glæsilegt, að því er snertir samanburð á tekjum og útgjöldum landssjóðs. Þetta eru mjög erfiðir tímar; altaf kreppir meir og meir að; erfiðleikarnir á því að fá vörur í öðrum löndum verða meiri, eftir því sem líður á stríðið, skipakomur verða strjálli, en af þessu leiðir aftur, að öll framleiðsla hlýtur að minka að mun.

Aðaltekjur landssjóðs eru tollar á útlendum vörum og útflutningsgjald af innlendum vörum.

Eins og gefur að skilja hljóta þessar tekjur að rýrna, eftir því sem erfiðleikarnir vaxa. En það eru einungis þessar tekjur landssjóðs, sem minka, því að, eftir því sem framleiðslan í landinu verður minni, eftir því verður gjaldþol manna yfirleitt minna, og að sama skapi hlýtur að draga úr flestum gjöldum, er hvíla á landsbúinu og renna í landssjóð.

Ef litið er á aðalatvinnuvegi landsbúa, landbúnað og sjávarútveg, þá hefir annar þeirra, sjávarútvegurinn, orðið fyrir stórkostlegum hnekki í ár. Þetta stafar af því, hversu erfitt hefir verið að ná í nauðsynleg efni til framleiðslunnar, en þar við hefir bæst aflaleysi, að minsta kosti hjá þeirri útgerð, sem rekin er í stærstum stíl og mestan kostnað hefir í för með sjer, en jafnframt, þegar vel lætur, gefur einna mestar tekjur í landssjóð. Ofan á þetta bætist svo, að landið er í þann veginn að missa helming af botnvörpuflotanum, svo að það má fara nokkuð nærri um það, hvernig sjávarútvegurinn horfir við í nánustu framtíð, ef stríðið heldur áfram.

Landbúnaðurinn stendur auðvitað talsvert fastari fótum, og stafar það mest af því, að segja má, að hann geti fremur verið sjálfum sjer nógur, eða hann geti fremur komist af með afurðir sínar, en þurfi síður að vera upp á aðra kominn. Þó hefir einnig hagur hans harðnað á síðustu tímum, og verður harðari og harðari, eftir því sem á stríðið líður.

Tekjur landssjóðs hljóta því að minka, en á hinn bóginn er ekki hægt að draga úr útgjöldunum að sama skapi; með öðrum orðum, það hlýtur að verða tekjuhalli.

Það var líka bersýnilegt, að í frv. stjórnarinnar voru tekjurnar ofhátt áætlaðar, en hins vegar ýmsir bráðnauðsynlegir útgjaldaliðir oflágir.

Það var eins og hæstv. stjórn hefði verið að stritast við að láta tekjur og útgjöld landssjóðs mætast, en þótt það sje fallegt á pappírnum, þá er þetta villandi, og jeg hygg, að enginn sanngjarn maður hefði getað álasað stjórninni fyrir það, þótt hún nú, á þessum erfiðu tímum, hefði látið fjárlagafrumvarpið fara frá sjer með talsverðum tekjuhalla.

Hæstv. stjórn hefir verið legið á hálsi fyrir það, að hún hefði ekki lagt fyrir þingið frumvörp, sem hefðu auknar tekjur í för með sjer, en jeg get ekki álasað henni svo mjög fyrir það, því að auknar tekjur verða að eins með auknum sköttum og tollum, en jeg fæ ekki sjeð, að á þessum tímum megi leggja öllu meiri byrðar á hendur landsbúum en nú þegar hvíla á þeim.

Þótt þau tekjufrumvörp, sem liggja fyrir þinginu, hafi ekki miklar auknar tekjur í för með sjer, þá verður því ekki neitað, að þau koma allhart niður á sumum stjettum, enda hafa heyrst háværar raddir á móti þeim, og bendir það til þess, hversu heppilegt hefði verið að ganga miklu lengra, eins og sumir hafa viljað.

Háttv. Nd. hefir gert nokkrar breytingar á tekjubálki fjárlaganna. Flestar af þeim breytingum ganga í þá átt að færa niður tekjurnar. Fjárhagsnefndin er sammála háttv. Nd. um þetta, en henni finst að eins, að ekki hafi verið farið nógu langt í að lækka einstaka liði. Aftur hefir háttv. Nd. hækkað einstaka liði með tilliti til frv. þeirra, er liggja hjer fyrir hinu háa Alþingi, en þar er fjárhagsnefndin á alt öðru máli.

Jeg skal svo fara nokkrum orðum um brtt. þær, er fjárhagsnefndin hefir lagt til að gerðar væru við tekjubálkinn.

Það er þá fyrst, að hún leggur til að tekjuskatturinn verði hækkaður um 20 þús. kr. fyrra árið. Þetta er gert með tilliti til þess, að nú er fyrir þinginu frv., er fer fram á talsverða hækkun á tekjuskattinum, frv., sem ekki er ólíklegt að nái fram að ganga. Ef það verður að lögum, má búast við allmikilli hækkun fyrra árið, 1918, því að þá á að greiða skatt af tekjum ársins 1916, en það mátti heita gott ár, og þá var góður afli. En það er ljóst, að tekjurnar 1919 verða miklu minni; það þarf ekki annað en líta á árið í ár, til þess að sannfærast um það, en þá á að greiða skatt af þessa árs tekjum. Því var það, að fjárhagsnefndin taldi sjer ekki fært að hækka þennan lið síðara árið.

Þá leggur nefndin til, að vitagjaldið verði lækkað fyrra árið um 15 þús. kr. Þetta gjald fór smáhækkandi til ársins 1914; þá var það rúm 62 þús. kr., en síðan hefir það farið lækkandi, og 1916 var það rúmar 36 þús. kr., og nú frá nýári til síðasta júní hefir það orðið 9625 kr. Þetta eru afleiðingar af stríðinu, skipaferðirnar verða strjálli og strjálli, og því er það, að þótt samþykt hafi verið hjer frv. um hækkun á vitagjaldi, þá þótti nefndinni það sett hæfilega hátt, að áætla það 35 þús. kr. fyrra árið; en nefndin vildi ekki lækka það síðara árið, og var það með þeirri von, að úr muni rætast, skipakomur aukast og samgöngur batna.

Tóbakstollinn vill nefndin lækka um 50 þús. kr. hvort árið. Þessi tollur hefir að vísu altaf farið smáhækkandi, en fyrri hluta þessa árs (1/1—30/6) nam hann 97800 kr.

Þótt hliðsjón væri höfð af frv. því, sem nú liggur fyrir þinginu, um hækkun á þessum tolllið, þá má gera ráð fyrir, að innflutningur á tóbaki verði nokkru minni á næstu árum, ef marka má, hve dregið hefir úr honum í ár.

Kaffi- og sykurtoll og vörutoll þykir nefndinni ekki varlegt að áætla meiri en 450000 kr. fyrra árið hinn fyrnefnda, en 275000 kr. hinn síðarnefnda.

Það virðist mega ganga að því vísu, að eftir því, sem tímarnir verða erfiðari, eftir því verði neyslan í landinu minni. Og eftir því, sem stríðið stendur lengur, eftir því verður erfiðara með alla aðdrætti til landsins, og því minni tekjur af þessu. En nefndin hefir eigi viljað lækka þessa liði síðara árið. Hún vonar, að þá verði eitthvað farið að rætast úr, og viðskiftin komin í betra horf.

Jeg skal geta þess, að vörutollurinn hefir orðið tímabilið 1/1-30/6 1917 alls 81277 kr., og þótt hann yrði nokkru meiri síðara hluta ársins, þá yrði hann talsvert minni í ár en fyrirfarandi.

Nefndin leggur til, að pósttekjurnar verði hækkaðar um 50 þús. kr. á ári, og er það gert með tilliti til frv. þess, sem liggur fyrir háttv. deild, um hækkun burðargjalds, og telja má mjög líklegt að nái samþykki þingsins.

Síðasta brtt. nefndarinnar er örlítil breyting á 5. gr. frv. Sú brtt. má teljast svo sjálfsögð, að um hana þurfi ekki að tala, og læt jeg mjer nægja að vísa um hana til nefndarálitsins.

Þótt fjárhagsnefndin hafi eigi gert fleiri brtt. við tekjubálk fjárlaganna, þá blandast henni ekki hugur um það, að ef stríðið heldur áfram næsta ár, þá eru ýmsir fleiri tekjuliðir áætlaðir ofhátt. Má þar til telja t. d. útflutningsgjald, vínfangatoll o. fl. tekjuliði, sem þá munu alls ekki standast áætlun.

En á þessum tímum er ómögulegt að gera nákvæma áætlun yfir tekjur og gjöld landssjóðs; slíkt verður að vera nokkuð af handahófi, en eitt er víst, að tekjuhallinn verður mikill — hve mikill, er ómögulegt að giska á með neinni nákvæmni; tíminn og reynslan verður að skera úr því.