08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (S. E):

Í þetta sinn stend jeg upp að eins til þess, að gera örlitla athugasemd. Jeg hefi hugsað mjer að fara síðar nokkrum orðum um fjárhag landsins, annaðhvort við þessa umr. fjárlaganna eða við 3. umr. þeirra.

Um tekjubálkinn vil jeg geta þess, að jeg álít ekki ástæðu til að fara nákvæmlega út í hvern lið fyrir sig, því að litla þýðingu hefir, hvort liðirnir eru færðir upp eða niður um nokkur þúsund.

En rjett er að fara sem varlegast í sakirnar, þegar alt er eins óvíst og nú er.

Óviðkunnanlegt þykir mjer, eins og háttv. nefnd hefir gert, að miða tekjurnar við ýms tekjufrv., sem nú eru á ferðinni gegnum þingið, því að óvíst er um sum þeirra, að þau gangi fram.

Um tekjuskattinn býst jeg við, að óhætt sje að ganga út frá áætlun nefndarinnar, þótt hún hafi hækkað fyrra árið, jafnvel þótt tekjuskattsfrumvarpið verði ekki að lögum, en um kaffi- og sykurtollinn tel jeg aftur á móti ekki ósennilegri áætlun Nd.

En auðvitað er hjer, einnig um alla þessa liði, að eins um áætlun að ræða, og þótt áætlunin, eins og hún er nú, verði að teljast gætilega gerð, þá má þó vera, að hún reynist ofhá.

Yfirleitt mun jeg greiða atkv. með till. nefndarinnar.