21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg hefi lítið að segja, með því að hæstv. forsætisráðh. hefir svarað nálega öllum atriðum í ræðu hv. þm. V.-Sk. (G-.Sv.).

Jeg stóð mest upp af þeirri ástæðu, að það kom fram í ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að hann kunni því illa, að jeg svaraði ekki hv. framsm. fjárhagsnefndar (M. G.), en það, að jeg gerði það ekki, kom til af því, að mjer líkaði ræða hans svo vel, fanst hún glögg og greinileg og laus við hlutdrægni, eins og við mátti búast úr þeim stað.

Jeg veit ekki, hvort jeg á að fara að hreyfa við atriðum, sem til stjórnarinnar var vikið; í rauninni kemur það mjer harla lítið við, annað en þær athugasemdir, sem lutu að fjárhag landsins, og þá einkum undirbúningi fjárlaganna. Jeg skal þá geta þess um fjárl.frv., að 1. eintakið af því er skrifað á öllum skrifstofunum, og gerir hver sínar tillögur, en að síðustu gera svo allir ráðherrarnir út um frv. í sameiningu. Í rauninni kemur því lítið annað til kasta fjármálaráðherrans en tekjuhliðin. Það var tilgangur stjórnarinnar að gæta sem mestrar sparsemi; öll stjórnin var á einu máli um það að leggja fram frv. með engum áætluðum tekjuhalla. Stjórnin bjóst aldrei við því, að fjárveitinganefnd mundi koma fram með slíkar tillögur, sem nú hefir raun á orðið, og man jeg ekki til þess, frá því að jeg kom fyrst á þing, árið 1901, að fjárlaganefnd hafi nokkurn tíma orðið jafnör á fje landsins sem nú. Jeg gat þess við 1. umr. þessa frv., að tekjur og gjöld landssjóðs á næsta fjárhagstímabili stæðu hjer um bil í járnum, og ef þessari stefnu stjórnarinnar hefði verið haldið, þá mundi ekki hafa þurft að auka tekjurnar mikið, þ. e. a. s. frá því sem var þegar frv. var samið, sem sje í síðastliðnum febrúar, en auðvitað hafa atvik breyst síðan, og ef stjórnin hefði getað sjeð fyrir, að hækka þyrfti útgjöldin, þá mundi hún líka hafa sjeð fyrir tekjuauka með nýjum tekjuaukafrv. eða lánsheimildum eða hvorutveggja. En vjer gátum ekki sjeð þessi útgjöld fyrir, fremur en aðrir.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) drap á það, að ætlast mætti til meiri vinnu af 3 mönnum, sem sætu í ráðuneytinu, en 1 manni, sem áður var. Honum láðist að geta þess, að fyrir stjórnarskiftin í vetur voru mennirnir 2, sem sje ráðherra og landritari, svo að að eins 1 maður hefir bæst við, en síðan hafa svo mikil störf bæst við, að nú hvíla miklu meiri störf á þessum 3 mönnum en áður á 2; þau hafa vaxið meir en um einn þriðja.

Hæstv. forsætisráðherra hefir þegar svarað athugasemdinni um óhagstæð vörukaup landssjóðs. Það er öllum kunnugt um það, hvernig hagaði til um skipin, sem send voru til Ameríku, að þau voru tept, svo að stjórnin neyddist til að leggja á vöruna fyrir dvöl skipanna, því að þeirri stefnu hjelt stjórnin, sem háttv. framsm. fjárhagsnefndar (M. G.) taldi rjetta, sem sje, að landssjóðsverslunin legði heldur til hliðar, til þess að hafa eitthvað upp í skarðið eftir á, þegar upp yrði gert. Þetta var það, sem olli því, að varan varð dýr; það var vegna þeirrar áhættu, sem stjórnin varð að leggja út í, en kaupmenn leggja ekki út í. Verðið hefir því við eðlilegar ástæður að styðjast, eins og hæstv. forsætisráðherra tók fram.

En um tafir skipanna er það að segja, að öllum má vera kunnugt um það, að öll norsk skip voru tept jafnlengi eða jafnvel lengur og fengu ekki kol, jafnvel þótt þau væru fullferðbúin að öðru leyti. Það mundi hafa gilt einu, hvern umboðsmann vjer hefðum haft; vjer mundum aldrei hafa fengið undanþágu, með því að farbannið var algert. En auk þess vil jeg benda á það, að öll yfirviðskiftaráðin voru í Lundúnum, svo að umboðsmaður stjórnarinnar í Ameríku varð að snúa sjer til Lundúna, eða til breska konsúlsins hjer, í öllum samningaumleitunum, og er það auðvitað mikil krókaleið og olli miklum töfum. Jeg verð líka að mótmæla því, að stjórnin hafi nokkurn tíma orðið umboðsmannslaus í Ameríku; hún hafði alla tíð afgreiðslumann skipanna, mjög duglegan mann, sem gerði alt, sem í hans valdi stóð, til þess að hrinda málunum áfram.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mintist á, að stjórnin hefði sýnt fálm í þeirri upptalningu varanna, sem fram fór í maílok í vor, með því að hún hefði ekki grenslast eftir því, hvers menn þyrftu, heldur hvað menn ættu. Eins og þá var ástatt var nauðsynlegt fyrir stjórnina að fá að vita, hvað mikið menn ættu, til þess að vita, hvers menn þyrftu og til þess að hægt yrði að bæta skortinn, þar sem skortur var. Stjórnin átti þá von svo lítilla birgða, að hún varð að hafa þetta svo, svo að upplýst yrði, hvar þörfin væri bráðust. Ef spurt hefði verið að því, hvað menn þyrftu, þá voru engar hömlur reistar við því, að svo mikils yrði krafist, að ekki væri hægt að fullnægja því. En með þessu lagi var innan handar að halda skrá yfir allar vörubirgðir og reikna út, hverju bæta þyrfti við; með þessu mátti leggja grundvöll undir »statistik« um þarfir þjóðarinnar.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) kom með eitt atriði, sem jeg þarf að svara. Það er einkennilegt, að menn eiga bágt með að skilja það, að eins og ástatt er má ekki miða skipagöngur við það, sem eðlilegast er á venjulegum tímum. Venjulega myndi það reynast ódýrast að senda stórt skip, sem meðferðis hefir vörur frá útlöndum á alla þá staði kringum landið, sem vörurnar eiga að fara til, en eins og nú er ástatt reynist það ódýrast að senda vörurnar út um landið með smáskipum. Tökum dæmi. 1000 smálesta skip, eins og t. d. Bisp, er mánuð á ferðinni frá og til Ameríku, og kostar þá 200 þús. kr., en ef það ætti auk þess að fara á allar hafnir landsins með farminn, þá myndi það taka ekki minna en ½ mánuð og kostnaðurinn við það verða 100 þús. krónur. Stríðsvátryggingin er sem sje jafnhá á skipinu fyrir því, þótt það fari hjer innanlands, eins og þegar það fer á milli landa. Nú sjá það allir heilvita menn, að fragtin verður ódýrari með því að flytja vörurnar kringum landið með smáskipum frá Reykjavík heldur en að flytja þær með stóru skipunum, því að þannig losnum vjer við stríðsvátryggingu og ýmsan annan kostnað, sem stóru skipunum fylgir. Það er því svo langt frá því, að landsmenn tapi, að rjettara er að segja, að þeir græði á því, að þessi tilhögun er höfð. Þess vegna er það ekki rjett nje sanngjarnt að bæta landsmönnum úti um land upp verðið, með því að Reykjavík verður í rauninni ver úti en þeir. Þessa vil jeg láta getið til þess að girða fyrir, að menn haldi, að vörurnar hafi orðið dýrari við það, að flytjast fyrst hingað til Reykjavíkur heldur en beint út um landið.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til þess fyrir mitt leyti að svara fleiri atriðum, sem fram hafa komið.