15.09.1917
Efri deild: 58. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

72. mál, hagnýt sálarfræði

Framsm. (Magnús Torfason):

Loks kemst þetta mál þá til umr., ef enginn háttv. þingdeildarmaður stingur þá upp á, að það verði tekið út af dagskrá. Eru það sjálfsagt hin nýju vinnuvísindi, sem valda því, að sama málið er tekið þrisvar til sömu umr.

Eins og sjá má af nefndarálitinu hefir nefndin lagt aðaláhersluna á það, að háskólaráðið hefir ekki talið brýna þörf á að stofna nýtt embætti í sálarfræði við Háskólann. En síðan nefndarálitið var samið hefir nefndinni borist erindi frá heimspekideild Háskólans, dagsett 24. okt. 1916, þar sem hún mælir með því, að beiðni Guðmundar Finnbogasonar frá árinu 1915 um, að stofnað verði prófessorsembætti handa honum, verði tekin til greina. Vera má, að álitamál sje um, hvort meira tillit eigi að taka til háskólaráðsins en heimspekideildarinnar, en jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að ekki sje ástæða til þess að stofna embætti við Háskólann, sem háskólaráðið sjálft krefst ekki eða álítur óhjákvæmilegt fyrir Háskólann. Tel fyrirdæmið afarviðsjárvert.

Þá er og vikið að því í nefndarálitinu, að þar sem óvíst sje, hvort Háskólanum verði haldið áfram í ár, sje enn minni ástæða til þess að stofna embættið. Nú hefir nokkur breyting orðið á þessu, og verða háttv. deildarmenn því að ráða við sig sjálfir, hvort þeir leggja meiri eða minni áherslu á þessa ástæðu heldur en þegar hún var fram borin.

Loks er vikið að því í nefndarálitinu, að þó að alls góðs megi vænta af þessum manni, þá sje þó ekki enn sýnt, að verulegt gagn muni af þessari kenslu. Nefndin lagði áherslu á, að þar sem hjer er um hagnýta sálarfræði að ræða, þá sje eðlilegt, að beðið sje eftir því, að einhver agnarlítill árangur sjáist af vinnuvísindunum, áður en farið er að stofna prófessorsembætti í þeim. Þetta er ekki sagt þessum heiðursmanni, sem hjer er um að ræða, til hnjóðs á nokkurn hátt, en það er vitanlegt, að ekki er nema örskamt síðan hann fór að leggja stund á þessi fræði, og er því ekki hægt að búast við, að árangur sje enn sýnilegur. Annars skal jeg taka það fram, að það kom fram í nefndinni, að fult eins heppilegt gæti verið að lofa þessum efnilega manni að fá ráðrúm til þess að setja sig inn í störf sín í næði, og að það mundi ef til vill einungis draga úr vinnu hans, ef hann væri gerður að prófessor nú þegar og þar með skyldaður til þess að flytja fyrirlestra. Jeg get að lokum bætt því við, að hæstv. atvinnumálaráðherra hefir fyrirfram ákveðið, hvernig hann ætti að greiða atkvæði, og þar með sýnt, hversu mikils hann metur vinnuvísindin. Háttv. deildarmenn verða vitanlega að ráða það við sig sjálfir, hversu mikið þeir eigi að gera úr þessum meðmælum hans.