08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Magnús Torfason:

Jeg er svo óheppinn að eiga 2 brtt., og neyðist því til að fara um þær fáum orðum. Önnur þeirra er á þgskj. 829. Sú brtt. fer fram á, að styrkurinn til húsmæðraskólans á Ísafirði verði hækkaður um 200 kr. á ári, eða úr 1600 kr. í 1800 kr. Ástæðan til þess, að jeg ber þessa brtt. fram, er sú, að kvenfjelagið »Ósk« á Ísafirði, sem stendur að þessum skóla, hafði farið fram á það við stjórnarráðið, að styrkurinn yrði hækkaður. Í aths. við þennan lið í fjárlagafrv. er tekið fram, að styrkurinn verði því að eins veittur, að 600 kr. tillag komi í móti annarsstaðar frá. Þessi krafa er harðari en venja er til, því að engum öðrum skóla er gert að skyldu að leggja fram meira en þriðjung til móts við landssjóðsstyrkinn, í mesta lagi. Brtt. fer nú fram á, að þessu lágmarki verði náð og landssjóður leggi til 1800 kr., gegn 600 kr. tillagi annarsstaðar frá. Til samanburðar vil jeg geta þess, að iðnaðarskólarnir eiga að leggja fram ? gegn 4/5 úr landssjóði. Skóli þessi er eini sjerskólinn, sem til er í Vestfirðingafjórðungi, sem landssjóður leggur nokkurn styrk. Hann er í upphafi stofnaður af fátæku kvenfjelagi af megnum vanefnum, og vantar enn þá mikið af nauðsynlegustu áhöldum. Jeg vænti þess, að fjelaginu sje gert það kleift að halda skólanum sæmilega uppi, en til þess þarf það meiri styrk en áður, sökum dýrtíðarinnar.

Þessi skóli er, eins og jeg gat um, eini skólinn í Vestfirðingafjórðungi, sem hefir styrk úr landssjóði. Það hefir verið farið fram á, að stofnaður yrði gagnfræðaskóli á Ísafirði, en það var kveðið niður. Síðan var farið fram á, að sjómannaskóli yrði settur þar, en því var ekki heldur sint, og vita menn afdrif þess máls hjer í þinginu. Skóli sá, er hjer er um að ræða, veitir hagnýta mentun, sjermentun. Jeg vil geta þess, að fjelagið hafði í huga að stækka hann að mun. Það var mjer að kenna, að ekki var farið fram á fjárveitingu í þessu skyni. Var þó full þörf á að stækka hann, þar eð aðsóknin er mjög mikil og fer sívaxandi. Skólinn er fyllilega þess verður, að hann verði aðnjótandi styrks úr landssjóði. Hann hefir gert stórmikið gagn og alið upp mörg húsfreyjuefni. Hann leggur áherslu á reglusemi og hagnýtni í hvívetna, og það er á allra vitorði þar vestra, að hann hefir haft mikil og góð áhrif, og menn enn betur kunnað að meta gagn hans í dýrtíðinni. Skólanum er vel stjórnað og mikil áhersla lögð á alla háttþrýði, kurteisi og siðsemi, og er bersýnilegt, að nemendur hans aukast mikið að manngildi. Fjelagið, sem stofnaði hann, hefir gert mjög mikið gagn. Hika jeg ekki við að lýsa yfir því, að kvenfjelagið »Ósk« er langmyndarlegasta kvenfjelagið hjer á landi, að Thorvaldsensfjelaginu einu undanteknu, þótt það hafi hingað til starfað af mestu vanefnum, og að því standi mest fátæklingar. Jeg vona því, að þessari litlu brtt. verði vel tekið. Á þessu þingi virðist sú stefna mjög rík, að landssjóði beri að styrkja fjórðungana til að halda uppi mentastofnunum heima hjá sjer. Þingið hefir samþykt Eiðaskólann, og einnig verður vafalaust samþyktur kvennaskóli á Norðurlandi, sem verður mjög stór í vöfum. Og sje skólinn á Ísafirði borinn saman við þann skóla, er það augljóst, að kvenfjelagið hefir sparað landssjóði mikið fje með því að halda skólanum uppi með sjerstakri framsýni og sparnaði. Jeg sje, að til undirbúnings Norðurlandsskólanum eru ætlaðar 2000 kr. Jeg skal síst telja það eftir, en vil að eins benda á, að allur styrkurinn til Ísafjarðarskólans nemur ekki þessari undirbúningsfúlgu.

Háttv. frsm. (E. P.) gat þess, að því síður væri ástæða til að hækka þennan styrk, sem í ráði væri að leggja alla skóla niður í vetur. Því er til að svara, að þingið hefir einmitt hækkað styrkinn til annara skóla vegna dýrtíðarinnar. En dýrtíðin kemur vitanlega niður á þessum skóla jafnt sem öðrum, og yrði hann þá út undan, að sínu leyti líkt og símastöðin í Vestmannaeyjum átti að verða. Mjer skildist á háttv. frsm. (E. P.), að nefndin hefði ekki þorað að leggja til, að styrkurinn yrði hækkaður, þar eð hana hefði brostið kunnugleika. Vona jeg nú, er jeg hefi lýst hag skólans og starfi hans, að háttv. nefnd geti fallist á hækkunina með góðri samvisku.

Hin brtt., sem jeg er flm. að, er á þgskj. 830, við 21. gr., að Ísafirði sje veitt 90 þús. kr. lán úr viðlagasjóði til raflýsingar. Er sú tillaga í samræmi við það, að Patreksfirði er veitt 55 þús. kr. lán í sama skyni. Jeg skal geta þess, að það er ekki tilætlun Ísfirðinga að nota þessa heimild, nema mjög mikið batni í ári, og býst jeg við, að þessi lánveiting verði fremur á pappírnum heldur en verkið komi til framkvæmda á þessu fjárhagstímabili. Er því óhætt að samþykkja tillögu þessa, eins og líka háttv. fjárveitinganefnd hefir lagt til að gert verði.

19. brtt. nefndarinnar, á þgskj. 811, við 13. gr. E. I. a., fer fram á, að laun vitamálastjóra verði hækkuð um 200 kr. á ári, úr 4000 kr, í 4200 kr. Þessari brtt. get jeg ekki gefið atkvæði mitt, sjerstaklega eftir að hafa heyrt ástæður háttv. frsm. (E P.) fyrir henni. Jeg álít sem sje hollast að hafa Íslendinga til að sinna störfum okkar. Og þá ekki síst þeim störfum, sem þannig eru vaxin, að menn þeir, sem þeim eiga að sinna, verða að vera nákunnugir högum vorum og landsháttum.

Einnig býst jeg við því, að settur verði sjerstakur hafnarverkfræðingur fyrir alt landið, og yrði þeim störfum þá ljett af þessum manni, er ekki var í upphafi ætlast til að hann gegndi, enda veit jeg ekki til, að hann hafi neina sjerþekkingu í þeim greinum.

Jeg hafði búist við því, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) gæfi deildinni upplýsingar um fjárhag landsins. Það er ef til vill til ofmikils mælst, því að þótt hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) gangi að vísu ekki í barndómi enn þá, þá er hann þó svo nýr af nálinni, að hann hefir ef til vill ekki getað kynt sjer, hvernig fjárhag landsins væri komið, eins vel og hann hefði óskað. En gott væri þó að fá einhverjar upplýsingar í þessu efni.