06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

74. mál, sveitarstjórnarlög

Hákon Kristófersson:

Háttv. frsm. (E. Árna.) sagði, að jeg hefði lýst yfir því, að mjer þættu laun oddvitanna oflág, en vildi samt ekki, að þau væru hækkuð. Jeg sagði ekki, að mjer þættu launin oflág, heldur að jeg vildi engan dóm á það leggja, hvort svo væri eða ekki, og að engin ástæða væri til að hækka laun þeirra, í samanburði við aðra hreppsnefndarmenn, sem ekki fá neitt fyrir starfa sinn. Jeg sagði enn fremur, að jeg hefði ekki heyrt neinar kvartanir frá oddvitum um, að launin væru oflág. Þótt oddvitarnir hafi aðalstörfin á höndum, þá hvílir samt mikið á hinum hreppsnefndarmönnunum, þar sem jeg þekki til. Háttv. frsm. (E. Árna.) benti á, að oddvitar hefðu innheimtuna á hendi, og að það yki mjög á starf þeirra. Það þarf ekki endilega að vera. Þeir geta látið nefndarmennina annast um innheimtu að nokkru eða öllu leyti. Sumstaðar eru oddvita líka borguð sjerstök innheimtulaun, 4% af því, sem hann innheimtir. (E. Árna.: Það er á móti lögunum). Það er ekkert á móti lögum, ef það er samþ. á hreppsfundi. Og af því getur oddviti haft talsverðar tekjur, þar sem mikið er að innheimta.

Þá er það um sýslunefndarmennina. Jeg veit, að það getur verið nokkuð misjafnt, hverju þeir þurfi að kosta til. Háttv. frsm. (E. Árna.) sagði um einn sýslunefndarmann, að hann hefði orðið að borga 6 kr. á dag og 30 kr. í ferðakostnað hvora leið. Mjer er þetta alveg óskiljanlegt. Jeg veit ekki, hvar það getur verið á þessu landi, sem svo langt er að sækja á sýslufund, að ferðakostnaður geti verið neitt nálægt þessu, nema ef kaupa þarf flutning á sjó. En fyrir slík einstök tilfelli er ómögulegt að synda, enda varla hægt að gera ráð fyrir, að þau þurfi að koma fyrir. Og að borga með sjer 6 kr. á dag er alveg óþekkjanlegt á úthjeruðum. (E. Árna: Þetta var ekki »á úthjeraði«). Jæja, jeg á við úti um land. Það gæti kann ske komið fyrir hjer í Reykjavík, en varla nokkursstaðar annarsstaðar. Ekki svo að skilja, að jeg efist neitt um sannsögli háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.). En hjer hlýtur að vera að ræða um alveg sjerstakt tilfelli, sem ómögulegt er að taka tillit til.

Þá drap háttv. frsm. (E. Árna.) á það, að jeg hefði fylgt fram launahækkun hreppstjóra, en kvaðst þó ekki vilja setja það í neitt samband við það, að jeg væri hreppstjóri, en ekki oddviti. Það var mjög nærgætnislega sagt af honum. En jeg verð að játa það, að jeg álít það miklu ábyrgðarmeiri störf, sem hvíla á hreppstjórunum, heldur en á oddvitunum, og því meiri ástæða til að launa þá. Jeg hefi líka sjálfur verið oddviti og fann aldrei til þess, að jeg hefði oflítil laun. Að jeg hefi viljað vera laus við þann starfa kemur af öðru en að starfið sje vanborgað. Og jeg er þó að minsta kosti sýslunefndarmaður og vinn því að nokkru leyti á móti sjálfum mjer, með því að mótmæla þessu frv. (E. Árna.: Á að kjósa í vor?). Nei, það á ekki að kjósa í vor, og þótt það ætti að kjósa, þá hefði jeg góða von um að verða kosinn aftur, hvernig sem jeg snerist við þessu máli hjer. Háttv. 2. þm. Eyf. (E Árna.) þarf ekki að halda, að jeg sje svo lítilfjörlegur, að jeg sje að veiða mjer atkvæði, hvorki með þessu nje öðru. Jeg þarf þess ekki. Jeg get ekki heldur skilið, að hægt sje að segja, að neinnar eigingirni gæti hjá mjer í þessum launamálum. Jeg vildi heldur ekkert láta hækka laun hreppstjóranna, heldur að eins jafna þau. Frumvarp það kom frá stjórninni. Jeg mundi aldrei hafa gerst flutningsmaður að því. En úr því að það var komið fram, og jeg sá fram á, að það mundi verða samþykt, vildi jeg koma að sanngjörnum breytingum; brtt. mín við það frv. fór að eins í þá átt að jafna launin, þ. e. draga úr mismuni þeim, sem gerður var á hreppstjóralaunum í frumvarpinu, og jeg held, að það hafi verið fyllilega rjettmætt.