26.07.1917
Neðri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

80. mál, notkun bifreiða

Flm. (Einar Arnórsson):

Jeg bjóst ekki við, að þetta litla frv. mundi sæta þeirri mótspyrnu, sem það hefir orðið fyrir frá háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), og ekki hafa mótbárur hans sannfært mig um það, að frv. væri ótímabært. Jeg hefi borið frv. undir lögreglustjórann hjer, og er hann því samþykkur og telur frv. þarft. Jeg veit enn fremur um hugi margra manna hjer í bæ, og flestra manna mál er það, að altof mikill ökuhraði sje á bifreiðum í bæ, þar sem líkt hagar til og hjer í Reykjavík.

Háttv. þm. Mýra. (P. J.) sagði, að 10 km. hraði væri oflágt takmark. Það er rjett, að það er oflítill hraði, ef hann mætti hvergi meiri vera, en nú á þetta ákvæði að eins við um kaupstaðina og ámóta þjettbýli, en annarsstaðar er bifreiðunum heimilaður 35 km. hraði á klukkustund. Hann taldi mega ganga 10 km. á klukkustund. Jeg skal nú ekki segja um það, hversu mikill göngugarpur háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) er, en taka mundi jeg nærri mjer að ganga þá leið, sem því svarar, t. d. úr Reykjavík upp að Baldurshaga, sem láta mun nærri 10 km. Einnar stundar lestaferð er talin frá Reykjavíkurlæk upp að Elliðaám, og þá má telja harða reið til lengdar að ríða 10 km. á klukkustund; það mundi skemma hestinn til lengdar. Og ef 10 km. hraði í bæ, eða sem lætur nærri skarpri reið á hesti, er ekki talinn nægja bifreiðum, þá veit jeg ekki, hvers menn vilja óska framar. Athugi menn, hve langan tíma taki að fara með þeim hraða úr einum bæjarenda í annan, t. d. af Vesturgötu upp á Laugaveg. Dæmið, sem háttv. þm. (P. Þ.) nefndi um flýti, er ekki nægilegt. Svona mætti halda áfram; t. d. ef jeg hefði ekki flugvjel, þá gæti jeg ekki komist þetta og þetta, sem jeg þarf.

Í annan stað sagði sami háttv. þm. (P. Þ.), að erfitt mundi að fá mæla. Það er misskilningur. Svo framarlega sem hægt er að fá bifreiðar, en á því hefir enginn hængur verið, þá er hægt að fá mæla; sömu verksmiðjurnar framleiða þá, en fyrirferð og þyngd svo lítil og fragt þeirra því svo lág, að ekki mundu verða torveldleikar á sendingum þeirra.

Að öðru leyti vil jeg segja það, að svo framarlega sem bifreiðarnar geta ekki fullnægt þeim skilyrðum, sem þeim eru settar í öllum siðuðum löndum, þá eiga þær engan rjett á sjer hjer.

Enn fremur vjek sami háttv. þm. (P. Þ.) að gjaldskránni. Jeg skal geta þess, að jeg ætlaðist engan veginn til þess, að gengið væri á rjett þeirra manna, sem bifreiðar eiga; jeg ætlast til þess, að þeim verði settur sanngjarn taxti. Það er ekki fráleitara að fela stjórnarráðinu þetta en svo margt annað, sem því er trúað fyrir. Ef það hefir ekki þekkingu sjálft, þá aflar það sjer hennar hjá hæfum mönnum,

t. d. forstöðumanni vjelstjóraskólans, og auðvelt er að vita, hvað bensín kostar á hverjum tíma; eftir þessu má breyta gjaldskránni, eins og sjálfsagt er gert hvarvetna annarsstaðar.

Jeg skal geta þess, að sumstaðar í útlöndum er bifreiðum bannaður akstur um tiltekna vegi, og sumir vegir eru óheimilir til yfirferðar ákveðna daga; t. d. er svo í Noregi. Það er þess vegna engin fjarstæða, sem háttv. samþingismaður minn (S. S.) benti á, og tel jeg rjett að taka bendingar hans til athugunar, þótt ekki þori jeg að segja, að hægt sje að framkvæma þær.

En hitt, sem sami háttv. þm. (S. S.) mintist á, að takmarka næturferðir bifreiða, þá kann það að þykja hart, því að sá bragur er nú kominn hjer á, sem víða í bæjum erlendis.

Enda jeg svo mál mitt með þeirri ósk, að deildin sýni frv. þann sóma að vísa því til 2. umr. og til nefndar. Jeg endurtek það, að það er mildi, að ekki skuli fleiri slys hafa orðið af bifreiðum en raun hefir á orðið, og jeg álít, að þeir, sem leggja stein í götu frv., beri siðferðilega ábyrgð á þeim slysum, sem seinna kunna af því að leiða, ef eigi verður til breytt.