26.07.1917
Neðri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

80. mál, notkun bifreiða

Flm. (Einar Arnórsson):

Að eins örfá orð. Háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) staðhæfir, að hjer á landi sje örðugra að fullnægja skilyrðum þeim, sem frv. þetta setur, en annarsstaðar. Það fæ jeg ekki sjeð.

Fyrst og fremst er það gjaldskráin. Þar er ekki annað en leita álits kunnugra manna. Álít jeg, að stjórnarráðið geti vel sett hana. Svo þarf að prenta hana á pappír, sem eins má fá til þess hjer sem annarsstaðar.

Jeg skoða það svo sjálfsagt atriði að fá mælana, að um það ætti ekki að þurfa að deila. Auðvitað hefir það dálítinn kostnað í för með sjer, en hins vegar alveg óhæfilegt í siðuðu landi að aka með þeim hraða, sem hingað til hefir tíðkast. Jeg er því feginn, að hæstv. forsætisráðherra, svo kunnugur maður, telur rjett að setja ákvæði um ökuhraðann. Jeg skal fallast á það með honum, að ef til vill megi orða greinina á þá leið, að ökuhraðinn megi ekki vera meiri en 10 km. á klukkustund, nema sveitar- eða bæjarstjórn leyfi. Mun sú bending tekin til íhugunar. (P. Þ.: Það er aðalatriðið). Látum svo vera, en þá býst jeg við, að sveitar- og bæjarstjórnir líti svo rjett á málið, að þær leyfi ekki meiri hraða.

Ákvæðið í 3. gr., um einkennishúfuna, hefi jeg aldrei talið neitt aðalatriði. En jeg leit svo á, að það gæti verið hentugt, ef t. d. bifreiðarstjóri vildi ekki nema staðar eða hægja ferðina. Þá yrði hægra að þekkja hann aftur, og hægra jafnan að ná í hann, ef s1ys verða, og margir safnast saman um vagninn, eins og títt er.