04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

80. mál, notkun bifreiða

Frsm. (Einar Arnórsson):

Það er eins með þetta frv. og það, sem nú var vísað til 3. umr., að allsherjarnefnd hefir haft það til meðferðar og orðið sammála um að mæla með því með dálitlum breytingum. 1. brtt. fer fram á að breyta orðalaginu á 2. gr. bifreiðalaganna. Í þeirri grein er nú svo fyrir mælt, að stjórnarráðið geti, að fengnu áliti hlutaðeigandi sýslunefnda eða bæjarstjórna, takmarkað eða bannað með öllu umferð bifreiða á vegaköflum, ef hún er til óþæginda fyrir umferð um veginn. Nefndin hefir lagt til, að skilyrðið til þess að banna umferð yrði rýmkað þannig, að hægt sje að banna bifreiðaumferð um vegakafla, ef til óþæginda geti orðið, hvort sem um er að ræða óþægindi fyrir aðra umferð um veginn eða á annan hátt.

2. brtt er umorðun á 7. gr. bifreiðalaganna. Nefndinni var bent á það, að í greininni stæði, að ef hestur fældist, skyldi þegar stöðva bifreiðina. En þó að vagninn sje stöðvaður, þá getur þó vjelin verið í gangi og heldur áfram að gefa frá sjer hljóð, sem er nóg til þess, að hestar, sem orðnir eru hræddir, halda áfram að fælast, þótt vagninn sje kyr. Mjer hefir verið sagt, að menn hafi einmitt orðið fyrir þessu. Hestar hafi fælst og bifreiðarstjóri stöðvaði vagninn samstundis. En er hestamir hjeldu áfram að fælast og bifreiðarstjóri var beðinn að stöðva vjelina, hafi hann að eins svarað því til, að sjer væri það ekki skylt, því að bifreiðalögin krefðust þess ekki. Þess vegna vill allsherjarnefnd breyta lögunum þannig, að einnig sje skylt að stöðva vjelina. En til þess þurfti að orða um 1. málsgr. 7. gr., eins og nefndin hefir gert.

Loks er 3. brtt. Nefndinni sýndist rjett, að stjórnarráðið geti gefið bifreiðaeigendum frest á fullnæging þeirra ákvæða í lögunum, sem útheimtir útvegun nýrra áhalda. Nefndin leggur til, að þessi frestur megi vera til 1. apríl 1918.