27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Pjetur Jónsson:

Mjer er dálítið kunnugt um tilboð það frá Múlasýslunum, sem segja má að liggi fyrir í frv. þessu. Tilboðið er á þá leið, að sýslurnar bjóðast til að láta af hendi við landssjóð eignir þær, sem tilheyra hinum núverandi Eiðaskóla, gegn því, að landssjóður kosti þar skóla, annaðhvort bændaskóla eða unglingaskóla. Jeg veit, að tilboð þetta hefir verið í undirbúningi um nokkur ár, og jeg er á því, að þingið eigi að taka tilboðinu. Á hinu er jeg ekki búinn að átta mig enn, hvort skólafyrirkomulagið eigi heldur að aðhyllast. Jeg er ekki undirbúinn með það nú að kveða upp úr með mína skoðun í því efni. Ráðlegra hefði jeg þó talið, að landssjóður tæki að sjer að starfrækja skólann á sama hátt og nú er, með það fyrir augum þó, að síðar verði breytt til, ef ástæða þykir. Jeg hefði óhikað lagt til, að tilboðinu væri tekið með því skilyrði, en lengra hefði jeg helst ekki viljað að frv. færi. Mjer finst ástæða til að benda á það, að verði frv. samþ., eins og það liggur fyrir, þá virðist því slegið föstu, að landssjóður tekur að sjer að fullu og öllu — með töluverðu framlagi annarsstaðar að að vísu — að halda unglingaskóla hjer á landi. Með því er gefið fordæmi, sem önnur hjeruð mundu benda á, er þau kæmu með sínar kröfur um skólastofnun. Og það er full ástæða til að athuga vandlega hvert það gæti leitt, ef inn á þá braut er haldið. Að vísu má segja, að hjer sje um stórfúlgu að ræða, sem látin er af hendi, og að því leyti til sje einnig gefið annað fordæmi, sem benda mætti á, þegar aðrar kröfur kæmu um skólastofnanir. En jeg er ekki óhræddur um það, að því fordæminu kynni að verða skotið til hliðar, en starað eingöngu á hitt, að landssjóður kostaði þarna unglingaskóla.

Jeg er sem sagt ekki á móti því, að frv. verði tekið til rækilegrar yfirvegunar í nefnd. En jeg vil að eins benda háttv. mentamálanefnd, sem frv. að sjálfsögðu verður vísað til, á að athuga þetta fordæmi og þær afleiðingar, sem það gæti haft í för með sjer.