21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Í dag er þessi svo kallaði eldhúsdagur, er jeg heyri menn í málhvíldum telja mjög fróðlegan. Jeg fyrir mitt leyti mun ekki skapa neinn óróa; jeg tel vel við eiga, að þingið hafi gát á athöfnum stjórnarinnar og geri um þær hógværar athugasemdir, enda hafa þær ekki farið fram úr þeim takmörkum, það sem af er. Það mátti búast við athugasemdum frá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), með því að hann hafði gefið fyrirheit um þær áður, en vel mátti una við ummæli hans, að minsta kosti fram undir ræðulokin.

Athugasemdum háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) má skifta í 3 flokka. 1. starfsemi stjórnarinnar út á við. 2. starfsemi stjórnarinnar inn á við. 3. smáatriði, sem honum þóttu vera misfellur á hjá stjórninni, og kendi þar helst nokkurrar gletni hjá hinum háttv. þm.

Fyrsti flokkurinn er að sjálfsögðu sá, sem hefir að geyma stærstu atriðin. Um hann hefi jeg ekki neitt verulegt að segja, um fram það, sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) hafa þegar gert, því að þeir hafa svarað öllum þeim athugasemdum, sem gerðar voru þar um og einkum lutu að skipakaupum, vörukaupum og skipatöfum.

Annan flokkinn, starfsemi stjórnarinnar inn á við, skal jeg þá athuga nokkuð.

Það var minst á það, hve lengi stjórnin var að átta sig á því fyrirkomulagi verslunarinnar, sem nú er komið á. Það er játað, að stjórnin var ekki til fulls komin á hreint spor í fyrsta áhlaupinu, en mjög snemma tók hún upp þá meginreglu að fela sveitar- og bæjarstjórnum að hafa umsjón með vörunum, og í raun og veru hefir ekki verið fundið að þessari meginreglu, enda henni fylgt alstaðar þar sem skortur var á nauðsynjavöru, og einmitt þetta er stærsta málsatriðið.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mintist á talning varanna í vor og taldi sjer ekki ljóst, í hverju skyni hún hefði farið fram. Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) hefir nú svarað þessu. Mjer er jafnljóst nú sem áður, að það varð að fá að vita, hvað menn ættu, til þess að vita, hvað menn þyrftu, og furðar eflaust fleiri en mig á því, að fundið sje að þessu. Það mátti ganga að því vísu, að menn ættu að minsta kosti ekki minna en menn sögðu til um. Nú vita menn, hvers hver maður þarf til lífsviðurværis, samkvæmt reynslu undanfarinna ára, sem sje 150 kg. af útlendu kornmeti. Það þurfti þá að útvega kornvörur í því hlutfalli, þó með hliðsjón af því, að gera mátti ráð fyrir garðávexti með meira móti, ef sæmilega áraði. Það hefir nú ekki heldur verið kvartað undan því, að þessi áætlun um árlegar kornvöruþarfir hafi verið oflág. En að því miðaði talningin, að útvega mætti nægar birgðir.

Það var einnig minst á, að verslunin væri rekin frá skrifstofu stjórnarráðsins. Hæstv. forsætisráðherra hefir svarað þessu. Fyrirkomulagið er nú komið á fastan fót og var þegar í þingbyrjun. Þetta hefði auðvitað getað orðið fyr, en samt má jeg segja, að ekki var svo auðhlaupið að þessu, eins og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) ímyndar sjer.

Í þessu sambandi skal jeg minnast á samvinnu stjórnarinnar við verslunarstjettina. Þar hafði háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) ósanngjörn orð um stjórnina; hann sagði, að nokkur hluti stjórnarinnar hafi verið andvígur kaupmönnum, (hann hefir líklega viljað segja verslunarstjettinni) og lagt þá í einelti. Jeg veit ekki, á hverju hann byggir þetta, og veit ekki betur en að sama hafi gengið yfir kaupfjelög sem kaupmenn, eins og hæstv. forsætisráðherra hefir tekið fram. Stjórninni var það ljóst, að kaupmenn voru ekki færir um á vissum tíma að útvega þær nauðsynjar, sem þurfti, og var þá ekki til að dreifa öðrum aðdráttum en þeim, sem stjórnin gat haft Þegar kaupmenn hafa óskað rúms í skipum stjórnarinnar, hefir hún veitt það fúslega. Annað mál er það, að þegar kaupmenn sáu, að þeir gátu ekki fylgt sínum gömlu viðskiftareglum, þá gátu þeir ekki heldur staðið fyrir úthlutuninni eftir þeim, þar sem nú þurfti að miða úthlutun svo mjög við manntal á heimilum. Það er ekki gaman fyrir kaupmenn að neita sterkefnuðum mönnum um úttektir. Kaupmönnum var þá betra að geta sagt: »Jeg vil gjarnan láta þig hafa alt, sem þú vilt, en sveitarstjórnin ræður, hvað mikið þú færð«. Nú hafa líka kaupmenn víðast hvar tekið við vörunum í sín hús og hafa afgreiðslu þeirra á hendi. Jeg á enga von þess, að mjer verði sýndar sannanir því, að verslunarstjettin hafi verið lögð í einelti; að minsta kosti hefir verslunarstjettin sjálf ekki borið sig upp undan því.

Þá kem jeg að 3. flokknum, smáatriðunum.

Fyrst var minst á það, að manni, sem settur var í stjórn Landsbankans, var ekki haldið áfram í stöðunni til þess er embættið yrði veitt, heldur annar maður settur í hans stað. Hæstv. forsætisráðherra hefir nú sýnt fram á, að hjer er um ekkert óvenjulegt atriði að ræða, svo að jeg þarf ekki að sinna því nánara, en að eins taka það fram, að flestir munu telja, að þessi ráðstöfun hafi gefist vel.

Í öðru lagi mintist háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) á málgögn, sem væru undir verndarhendi stjórnarinnar eða nokkurs hluta hennar. Jeg get fullyrt það, að ekkert blað er undir verndarhendi nokkurs manns í stjórnarráðinu, og hefir því stjórnin enga ábyrgð á því, hvað nokkurt blað segir, enda get jeg fullyrt það, að enginn ráðherranna hefir skrifað í blöðin. Sami háttv. þm. (G. Sv.) sagði, að óvenjulegt væri, að blað, sem styddi stjórnina, færi svo að ráði sínu, eins og hann benti á. Jeg held nú samt, að þess sje ekki langt að minnast, með dæmum frá einu blaði hjer, sem studdi síðast fráfarna stjórn.

Jeg vil ekki fara frekari orðum um þetta, eða nefna nöfn einstakra manna, því að mjer finst þetta ekki vera eiginlegt þingmál. En það var eitt smáatriði enn, sem háttv. þm.

V.-Sk. (G. Sv.) mintist á í ræðu sinni, viðvíkjandi þeim forstöðumönnum, sem stjórnin hafði sett yfir landsverslunina. Þar til er því að svara, að stjórnin ber enga ábyrgð á, hvað um þá kann að hafa verið sagt. En jeg býst við því, að þó að háttv. sami þingmaður (G. Sv.) færi til þessara manna og spyrði þá spjörunum úr, þá mundu þeir svara því til, að stjórnin hefði hvorki verið ósanngjörn nje sýnt þeim á annan hátt vantraust. En eins og jeg tók fram áðan tel jeg ekki rjett að fara að nefna hjer nöfn einstakra manna, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sjer. Og þá auðvitað ekkert frekar nafn þessa seinasta manns, sem hann talaði um, að stjórnin væri búin að taka í sína þjónustu, og hann kvað eiga að vera hærra launaðan en þá, sem mest hafa. Jeg ætla að eins að lýsa yfir því hjer, að það hefir ekki enn verið talað um laun þessa unga manns, sem öllum kemur saman um, að sje mjög efnilegur í alla staði. En jeg býst ekki við, að þau verði meiri en það, sem áður var.

Jeg þarf svo ekki að svara háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) neitt frekar. En það var háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), sem var með öll »ef«-in sín. Eftir því, sem jeg heyrði best, var alt, sem hann tók fram, bygt á eintómum hlaupafregnum, og þar að auki »ef« og »hefði« í hverri setningu, en ekkert fullyrt, og finst mjer því ekki ástæða til að svara því frekar en hæstv. forsætisráðherra hefir gert

Að endingu vil jeg geta þess viðvíkjandi skýrslu þeirri, sem háttv. þm. V.-Sk.

(G. Sv.) mintist á og hæstv. forsætisráðherra, að hún liggur nú hjá háttv. bjargráðanefnd. Í henni er skýrt greinilega frá öllum höfuðatriðunum, bæði út á við og inn á við, en smáatriðunum slept. Enda finst mjer þau ekki miklu máli skifta á »eldhúsdaginn«.