08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg þarf ekki að svara háttv. framsm. (E. P.) mörgu Jeg heyri, að hann er í raun og veru á sömu skoðun og jeg um brtt. mína á þgskj. 836, og jeg vorkenni honum, að hann, sem fleiri, vill reyna að bera »myki« að þessum ófrjóa stofni, ef ske kynni, að hann fyrir það bæri einhvern ávöxt. Jeg býst nú reyndar við, að ávöxturinn verði aldrei betri en það, að mannvirki þetta, að ytra áliti, verði ekki þjóðinni til vansa, en saga þess verður það þó altaf.

Þess ber líka að gæta, að kostnaðurinn til þessarar stofnunar verður annar og meiri en sá, að koma upp húsinu. Þegar húsið hefir verið reist, og einhver telur sjer fært að skoða gripina, sem í því eiga að verða geymdir, þarf sjálfsagt einhvern þjóðsagnafræðing til þess að standa fyrir sýningunni, því að mörg líkneskin eru steypt upp úr gömlum þjóðsögnum, og eins og vjer vitum þá eru þær ekki allra meðfæri. Einnig þarf þessi maður að vera fær í erlendum tungumálum, til þess að geta leiðbeint útlendingum, sem þangað kynnu að koma, ef þeir þættust svo skóaðir, að þeir gætu gengið í þetta ódáðahraun, eða lagt í það sóma síns vegna.

Þá skal jeg minnast ofurlítið á Flensborgarskólann. Háttv. framsm. (E. P.) sagði, að það liti svo út, sem jeg hefði fremur hagsmuni Hafnarfjarðar fyrir augum en gagn skólans. En á það ber þá að líta, að þetta er ekki hjeraðsskóli, og þess vegna virðist mjer, að ekki geti komið til mála, að Hafnarfjörður greiði tillag til hans. Þeir hafa aldrei skoðað hann sem sinn eigin skóla, fremur en skóla, sem allur almenningur hefir gagn af. Vjer getum þess vegna átt það á hættu, ef þeir verða skyldaðir til að greiða skólanum tillag, að þeir neiti því, og að þá verði að loka skólanum.

En þar sem þm. (E.P.) sagði, að í skólanum hefðu verið 7 nemendur úr Gullbringu, þá er það tilviljun ein. Næsta vetur gætu komið 7 nemendur úr Ísafjarðarsýslu, því að, eins og vjer vitum, er það algengt, að ef einhver ætlar að stunda nám við einhverja námsstofnun, fylgjast fleiri með honum úr hjeraðinu. Þetta kenni jeg vel af Ólafsdalsskólanum. Stundum voru flestir nemendurnir þar úr Dalasýslu, en oft var líka meiri hluti þeirra utan þeirrar sýslu. Þetta er því tilviljun ein. Þess vegna álít jeg alveg rangt að skylda Gullbringusýslu og Hafnarfjörð til þess að greiða tillag til skólans. Þá hefði eins mátt leggja Kjósarsýslu þessa skyldu á herðar.

Jeg skal ekki halda því fram, að Flensborgarskólinn sje alveg hliðstæður gagnfræðadeild Mentaskólans eða Akureyrarskólanum. En jeg veit dæmi til, að hann hefir unnið sama gagn og þeir. Piltar, sem lokið hafa prófi við Flensborgarskóla, hafa oft komist upp í lærðu deild Mentaskólans, án frekari undirbúnings, eða með mjög litlum undirbúningi.

Jeg álít því mikinn skaða orðinn, ef skólanum yrði lokað, enda þyrfti þá að stækka gagnfræðadeild Mentaskólans, því að einhversstaðar yrðu þeir 60 nemendur að vera, sem eru í Flensborgarskóla. En jeg hygg nú, að þar sjeu nógu margir nemendur fyrir. Og loks skal jeg taka það fram, að jeg held, að áhrif þau, sem nemendur verða fyrir í Flensborgarskólanum, sjeu fult eins holl og áhrifin, sem þeir mæta í gagnfræðadeild Mentaskólans, ef þeir hugsa ekki um frekara nám.