06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Það er alveg rjettilega athugað hjá háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), að þetta ákvæði um íbúðina er eigi sem viðfeldnast, og skal jeg þegar taka það fram, að jeg er eigi ófús til breytinga í þá átt, sem hann benti til. Býst jeg jafnvel við, að nefndin verði því sinnandi. En ákvæðið er komið inn í frv. út af því, að álitamál þótti, hver laun skyldi ákveða, og þá þurfti að sjálfsögðu að hafa hliðsjón af þeim hlunnindum, sem veitt væru, en með því að skólinn á að vera í sveit, er nauðsynlegt að tryggja kennöndum íbúð, af því að erfitt er að fá hana í grend við skólann. Það vakti enn fremur fyrir oss, að takmarka þyrfti íbúðina, því að ella kynnu að verða offá herbergi til skólahaldsins. En þessi bending háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) mun tekin til greina og væntanlega verða gerð brtt. við 3. umr. í þessa átt.