06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Jón Jónsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 316. Jeg vil ekki gera kröfurnar harðari en þetta. Jeg vil, að dönsku sje haldið fastri sem skyldugrein, en hegð sje slept. Jeg lít svo á, að sú námsgrein, hegð, sje ekki mikils virði, enda vafasamt, hvort nokkur verði við skólann, sem fær sje um að kenna þá grein. Mjer er kunnugt um, að margir nemendur við skólana vilja alls ekki læra þá grein, enda sje jeg ekki, að hún sje annað en hjegómi. Þar á móti er danska nokkurs virði; það getur ekki talist fullkominn alþýðuskóli, sem ekki veitir tilsögn í einhverju tungumáli, auk móðurmálsins; bókmentir vorar eru svo ófjölskrúðugar, að unglingum er nauðsynlegt að kunna eitthvert tungumál, til þess að geta kynst annara þjóða bókmentum, en einmitt bókasöfn vor úti um land hafa mestmegnis að geyma danskar bókmentir. Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að nær lægi að velja þá sænsku í stað dönsku. Þess þarf ekki. Hver sæmilega skynugur maður, sem kann dönsku, getur fyrirhafnarlítið lesið sænsk rit. Jeg veit um sjálfan mig, að þótt jeg hafi ekki fengið tilsögn í sænsku, þá get jeg þó lesið hana mjer til gagns, af því að jeg hefi lært dönsku.

Þetta er þá ástæðan fyrir því að halda dönsku sem skyldugrein. Kenslan er ekki sæmileg, ef ekki er numið eitthvert tungumál, og er þá danska best til þess fallin, vegna þess, eins og jeg tók fram, að bókasöfnin úti um land eiga mest danskar bókmentir; aftur á móti er þar mjög lítið um enskar eða þýskar bækur.