06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Sigurður Sigurðsson:

Jeg tel mjer skylt, þótt það sje ekki vani minn, að gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli, því að hjer stendur sjerstaklega á. Í þessu frv. er farið fram á að leggja niður Eiðaskóla og koma upp alþýðuskóla á Austurlandi, á Eiðum eða annarsstaðar, í staðinn. Jeg verð að lýsa yfir því, að jeg er algerlega mótfallinn þessari breytingu. Jeg álít sem sje, að búnaðarskólinn ætti að halda áfram, og að það beri að breyta honum í bændaskóla og landið að taka hann að sjer, eins og aðra bændaskóla hjer. Jeg skal ekki rekja þetta mál langt, en get bent á ýmsar ástæður, sem mæla með því, að búnaðarskóli sje á Austurlandi, á Eiðum eða annarsstaðar þar. Jeg vil vekja athygli á því, að þar sem í 2. málsgr. 3. gr. í frv. er farið fram á, að haldið sje búnaðarnámsskeið haust og vor, er það ekki tekið fram, hvort vera skuli verkleg námsskeið eða fyrirlestrar. En þó skilst mjer, að þar sje heldur átt við verklegt nám, þar sem sagt er, að sjerstök áhersla skuli lögð á jarðrækt, smíðar, hússtjórn og mjólkurmeðferð. Ef það er rjett skilið hjá mjer, vil jeg benda á, að mjer fyndist »praktiskara« að takmarka námsskeiðið við eitt eða tvent, t. d. jarðrækt og hússtjórn. Það segir sig t. d. sjálft, að um mikinn lærdóm í smíðum getur ekki verið að ræða á svo stuttum tíma. Það var að eins þetta, sem jeg vildi benda á, að jeg kysi helst, að Eiðaskóla yrði breytt í bændaskóla, sem landið tæki að sjer; það hygg jeg að muni verða langhagkvæmast.