18.08.1917
Efri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf ekki mikið um þetta mál að tala. Því hefir verið vel tekið af hv. Alþingi, og sama sem engar breytingar hafa verið gerðar á frv., eins og það

kom fram í háttv. Nd., og nefndinni, sem fjallaði um málið þar, hefir farið eins og nefndinni hjer, að hún hefir lítið haft við það að athuga.

Þingmenn Múlsýslunga og Austur-Skaftfellinga báru frv. fram samkvæmt óskum manna þar eystra, um að fyrirkomulagi Eiðaskóla yrði breytt á þennan hátt. Hann hefir verið búnaðarskóli frá því að hann var stofnaður, en aðsókn hefir lítil verið að honum í seinni tíð. En nú er álitið, að alt annað muni verða uppi á teningnum, ef hann verður gerður að alþýðuskóla. Það er meiri þörf á slíkum skóla, og auk þess er alment litið svo á, að þeim skólum sje best borgið, sem stjórnin sjer um og landssjóður kostar. Hjer er líka nokkuð öðru máli að gegna en um nýja skóla, því að þessi skóli er nú orðinn nokkuð gamall og á talsverðar eignir. Húseignir eru miklar og viðunandi fyrst um sinn, svo að ekki er sjáanlegt, að byrðar landssjóðs geti aukist mikið, þó að þessi breyting kæmist á. Skólinn nýtur 3000 kr. styrks í núgildandi fjárlögum, og getur það ekki numið miklu, sem landssjóður yrði að kosta meiru til, þótt frv. verði samþykt.

Í greinargerð frv. er gert ráð fyrir, að eignir skólans muni að minsta kosti vera 100,000 kr. virði. Nefndinni hefir virst þetta síst ofhátt reiknað. 8 jarðir fylgja honum, og eru þær metnar 88 hndr. Auk þess á skólinn um 400 fjár og 10—12 stórgripi og mörg þús. krónur í húsum, innbúi og skólaáhöldum. Skuldir skólans eru um 10 þús. kr.

Eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt hefir verið útbýtt hjer í deildinni áliti fjárveitinganefndar um þetta mál, og hefir hún ekkert haft að athuga við fjárhagshlið þess. Það mun hafa gleymst að leita álits háttv. fjárveitinganefndar Nd. um málið, en það ætti ekki að skifta svo sjerstaklega miklu máli fyrir þessa háttv. deild, því að vjer munum síst gera minna úr skoðun þeirra mætu manna, sem sitja hjer í fjárveitinganefnd.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að mæla með því, fyrir nefndarinnar hönd, að mál þetta nái fram að ganga.