01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

93. mál, eignarnám eða leiga á brauðgerðarhús o.fl.

Einar Arnórsson:

Það er einungis vegna brtt. á þgskj. 232, að jeg stend upp. Eins og allur þingheimur man þá var við 2. umr. feld brtt, sem fór fram á það að kippa burt úr frv. heimildinni til náms til leigu. Nú hefi jeg ásamt háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) borið fram nýja viðaukatill., sem heimilar forstjórum og verkamönnum forgangsrjett til atvinnunnar. Mjer finst þetta sanngjörn till. og hún geta orðið til hagnaðar báðum málsaðiljum, bæði bæjarstjórn og atvinnurekendum. Í fyrsta lagi er með henni sjeð fyrir því, að menn þurfi ekki að missa atvinnu sína. Í annan stað er ætlast til, að sá hafi stjórnina, sem áður hafði. Í 3. lagi er það hagur bæjarstjórnarinnar, að sá haldi áfram meðferð húsa og áhalda, sem áður hafði slíkt á hendi, og líkur til þess, að hann geti betur haldið áfram sama fólki en ókunnugir.

Jeg vænti þess vegna, að engir, síst þeir, sem áður lögðu með því að fella burt 7., 8. og 9. gr. frv., verði á móti þessari viðaukatill.