27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

103. mál, hjónavígsla

Flm. (Gísli Sveinsson):

Jeg skal leyfa mjer að mæla nokkur orð, til viðbótar við greinargerðina fyrir frv.

Það er kunnugt, að ástandið í landinu er svo í þessu efni, að veraldlegir valdsmenn geta ekki gefið saman hjón, nema annaðhvort hjónaefnanna eða bæði sjeu utan þjóðkirkjunnar. Þetta finst mörgum hart, að veraldlegum embættismönnum skuli eigi jafnan heimilt að gefa saman hjón, hvernig sem á stendur.

Í annan stað eru prestar ekki allir jafnrjettháir til þess að gefa saman hjón; að eins þeir, sem eru þjóðkirkjuprestar, hafa rjett til þess að gefa hjón saman, hverrar trúarjátningar sem eru, en utanþjóðkirkjuprestar hafa ekki að lögum leyfi til þess að gefa saman hjónaefni, sem eru í þjóðkirkjunni. Eina undantekningin er fríkirkjupresturinn hjer í Reykjavík, sem fengið hefir sjerstaka undanþágu að þessu leyti.

Í þriðja lagi, þótt kleift sje með undanbrögðum að komast undan blessun prestana, þá geta hjónaefnin það þó ekki með ööru en því að sig úr þjóðkirkjunni að forminu til eða af yfirdrepskap, til þess að geta fengið borgaralega vígslu.

Hjónaband er algerlega borgarlegs eðlis og hefir verið það, þangað til kirkjan tók það undir sig, eins og önnur fleiri mál. En lögunum er ekki heldur fullnægt þótt menn geri þetta, að segja sig úr þjóðkirkjunni; þótt þeir sjeu alveg trúlausir, verða þeir að segja til, hverja trú þeir hafi og í hverri trú þeir ætli að ala upp börn sín. Þetta má teljast alveg óviðeigandi og óviðunandi. Það er nú komið meira los á kirkjumál en verið hefir, þótt alla tíð hafi verið innan kirkjunnar vjebanda menn sem ekki hafa fylgt trú kirkjunnar. En afleiðingar trúbragðafrelsisins ertu þær að menn vilja ekki hlíta þeirri kirkju, sem þeir ef til vill, eða oftast, af tilviljun hafa komist inn undir, því síður að þurfa að tilkynna trúarjátning, sem þeir má ske hafa alls ekki.

Frv. þetta miðar að því að ráða bót á þessu ástandi, á svipaðan hátt og á sjer stað í flestum menningarlöndum. Í sumum hélstu menningarlöndunum eru lögin enn strangari en þetta frv., tilskilur, sem sje skilyrðislaust borgaralegt hjónaband. Svo er í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki og Ítalíu, löndum, sem ekki verður sagt um, að apað hafi hvert eftir öðru.

Í þessu frv. er valin sú leið, sem mun þykja aðgengilegri, sem sje að gera mönnum frjálst, hvort þeir vilji klerklegt eða veraldlegt hjónaband. Það er hin facultativa leið. Þetta er efni frv., og í samræmi við það hafa verið gerðar nauðsynlegar breytingar á þeirri löggjöf, sem hjer að lýtur.

Hjer er og gerð ein lítil breyting, sem sje sú, að sóknarpresti beri ekki gjöld af þeim, sem velja annan prest eða embættismann til hjónavígslunnar. En að þessu hefir það verið svo, að hjónaefni, sem hafa valið sjer prest til hjónavígslunnar, hafa orðið einnig að greiða pússunartoll til sóknarprests brúðarinnar.

Jeg skal að eins geta þess í þessu sambandi, að jeg, ásamt háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), flyt till. til þingsályktunar um hjúskaparslit og afstöðu barna til foreldra. — Háttv. meðflutningsmaður minn (E.A.) hefir nú komið fram með brtt. við þá till. í þá átt, að hún hljóði einnig um stofnun hjúskapar.

Að gefnu tilefni vil jeg taka það fram, með því að jeg hefi orðið var við, að sumir hafa misskilið þetta, að þessi brtt. háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) fer alls ekki í bága við þetta frv., og jeg veit, að það er ekki tilætlun háttv. flutningsm. Hún hnígur að skilyrðunum fyrir stofnun hjónabands, en þetta frv., eins og menn sjá, hljóðar um athöfnina, um hjónavígsluna.