13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

103. mál, hjónavígsla

Eggert Pálsson:

Það er ekki ætlun mín að halda langa ræðu. En af því að mál þetta var í allsherjarnefnd í Nd., og þessi háttv. deild mun vísa því til nefndar, þá vildi jeg vekja athygli á því, hvort eigi mundi rjett, fyrst að einstaklingarnir eru leystir frá þeirri skyldu að nota sóknarprest sinn til þess að láta hann gefa sig í hjónaband, eða greiða honum gjald það, sem hann hingað til hefir átt rjett á að fá, hafi annar prestur gift, að þá væri einnig sóknarpresturinn leystur frá þeirri skyldu að gifta persónur, sem hann af einhverjum ástæðum, segjum trúarlegum, vill ógjarnan gifta. Nú kveður 7. gr. frv. svo á, að hjónaefni geti eigi að eins látið sýslumann eða bæjarfógeta gifta sig, heldur einnig annan prest en sóknarprestinn, án þess að þau leysi nokkurt gjald af hendi til prestsins. Því fyndist mjer rjettast og í bestu samræmi við þetta ákvæði, að prestur sje líka undanþeginn þeirri skyldu að gifta hjónaefni, ef honum, af einhverjum ástæðum, kynni að vera það ógeðfelt. Það getur hugsast, að presti þætti ekki geðfelt að gifta t. d. fráskildar persónur. Það hefir komið fyrir í Danmörku, að málaferli hafa risið út af því, að prestur neitaði að vígja þesskonar persónur, og varð úr hæstarjettarmál, og prestur sýknaður. Sömuleiðis gæti það auðveldlega komið fyrir, að prestar sæju sjer ekki fært, vegna trúarskoðunar sinnar, að gifta hjónaefni, sem eigi hefðu hlotið skírn, og sýndist þá engin ástæða til að þvinga prestinn til að framkvæma slíka vígslu, allra síst þar sem hjónaefnin geta samkvæmt frv. þessu eigi að eins látið sýslumann eða bæjarfógeta gifta sig, heldur hvern prest sem vera skal. Þess vegna fyndist mjer rjettast, að sóknarprestarnir væru undanþegnir þessari skyldu, úr því að hjónaefnin eru losuð við gjaldið til hans.

Jeg vildi skjóta þessu fram, væntanlegri nefnd til athugunar. En má ske slíkt ákvæði í þessu frumvarpi sje með öllu óþarft, fyrir þá skuld, að sömu lög sjeu hjer gildandi og í Danmörku í þessum efnum, samkvæmt hinum áminsta hæstarjettárdómi.