08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Jóhannes Jóhannesson:

Út af orðum háttv. þm. Snæf. (H. St.) vil jeg geta þess, að jeg hefi borið mig saman við landlækni um mál þetta. Hefir hann tjáð mjer, að hann teldi ófært að taka bitterinn í lyfjaskrá, sökum þess, að hann heyrir undir þau lyf, er kallast leyndarlyf.

Mjer hefði verið kært að fara þá leið, sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) benti á, en sú leið er ófær af þessum ástæðum.

Eins og kunnugt er hefir bitter verið seldur hjer á landi eftirlitslaust í fjöldamörg ár, en ekki hefi jeg heyrt eitt einasta dæmi þess, að menn hafi neytt hans sem áfengis, eða hann gert mein á annan hátt.

Hann var meira að segja seldur hjer til ársloka 1915, löngu eftir að bannlögin gengu í gildi. Það væri því engin nýlunda, þótt leyft væri að selja þessar 60000 flöskur eftirlitslaust.

Jeg tel það vafasamt, að það kæmi í bága við bannlögin þótt svo væri gert, þar sem bæði stjórn og þing hafa lýst yfir þeirri skoðun, að hjer væri ekki um áfengi að ræða, með því að hefta ekki sölu bittersins fyr en í árslok 1915.

Og jeg geri ekki ráð fyrir, að nokkur bannmaður hjer sje svo ofstækisfullur, að hann, af þeim ástæðum, vilji svifta landið þessum 40000 kr. tekjum.

Þess ber líka að gæta, að bannlögin gilda að eins um það, sem flutt er inn í landið, en bitter þessi er búinn til hjer.

En þótt nú svo væri, að þetta væri talið koma í bága við bannlögin, þá fyrirbyggir athugasemdin, sem liðnum fylgir, allan vanda, því að með henni er þá veitt heimild til undantekningar frá bannlögunum.

Jeg hefi borið mig saman við hæstv. forsætisráðherra, og telur hann þessa leið vel færa.