14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

112. mál, herpinótaveiði á fjörum inn úr Húnaflóa

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vil leyfa mjer að benda á, að í 1. gr. frv. er sýslunefndum Strandasýslu og beggja Húnavatnssýslna heimilað að gera samþyktir, hverri í sínu lagi eða saman. Eftir orðalaginu verður ekki annað sjeð en að hverri sýslunefnd fyrir sig sje heimilt að gera samþyktir fyrir alt svæðið. Það er ekki gert ráð fyrir, að því verði skift þannig milli sýslunefndanna, að hver þeirra hafi að eins rjett til að gera samþykt um veiði fyrir sinni sýslu. Mjer finst, að nefndinni hafi láðst að athuga þetta, og það verði að leiðrjetta, svo að ekki sje hægt að gera samþyktir fyrir alt svæðið, nema sýslunefndir allra sýslnanna komi sjer saman um. Jeg vil líka benda á, að ekki er gert ráð fyrir, hvernig sýslunefndirnar eigi að koma sjer saman um þetta. (M. Ó.: Það er eftir almennum samþyktarlögum). Það getur vel verið, að það megi komast fram úr þessu, en frv. er samt ákaflega stuttaralegt, og vantar í það ákvæði, eftir því sem mjer sýnist, sjerstaklega þó þessi, sem jeg hefi nú vikið að.