14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

112. mál, herpinótaveiði á fjörum inn úr Húnaflóa

Magnús Pjetursson:

Jeg get ekki sjeð nauðsyn til að leiðrjetta ákvæði 1. greinar, því að mjer finst það liggja í hlutarins eðli, að sýslunefnd geti ekki gert samþyktir fyrir aðrar sýslur en sína eigin. Þar að auki er þetta beint sagt í 2. gr., þar sem talað er um undirbúning funda og atkvæðagreiðslu þeirra, er á svæðinu búa. Mjer finst þetta útiloka allan misskilning. Aftur á móti er sjálfsagt, að hver sýslunefnd út af fyrir sig geti gert samþyktir um sína sýslu eða hluta úr sinni sýslu. En ef samþykt á að gera fyrir alt svæðið, verða auðvitað allar sýslurnar að taka þátt í því, af því að þær eiga land hvor sínu megin að flóanum. Það er síður en svo, að jeg sje á móti því að bæta við »um sitt svæði«, en mjer finst það óþarft, því að það hlýtur að upplýsast, þegar lesin er 2. og 3. gr., þótt það hafi misskilist áður.