21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Sveinn Ólafsson:

Jeg er ekki alls kostar ánægður með þau svör, sem jeg hefi fengið hjá hæstv. stjórn, út af þeim aðfinslum, sem jeg bar fram. Jeg held, að það sje ekki rjett athugað, að stjórnina hafi brostið heimildir til að framfylgja því, sem tekið var fram í þingsályktunartillögunni frá í vetur. Það var ekki heldur tilgangurinn, eins og hæstv. fjármálaráðherra (B.K.) gaf í skyn, að stóru skipunum hefði verið ætlað að annast vöruflutningana kringum land. Það var vitanlega hlutverk stjórnarinnar að annast um flutningana, sem kostnaðarminst, til fjarlægra hafnarstaða, og það eitt bundið við borð, að kaupendur þar sættu eigi lakari kjörum en kaupendur hjer. Þegar svo frv. um ýmsar ráðstafanir út af Norðurálfuófriðnum var samþykt, var þessi tillaga tekin aftur, því að þessi heimild felst einmitt í 2. gr. frv. Til þess að allir geti sannfærst um, að þessi heimild er nægilega ljós, vil jeg leyfa mjer að lesa það, sem að henni lýtur í 2. gr. nefndra laga.

»Og heimilast landsstjórninni að veita þeim, sem búa utan Reykjavíkur, sanngjarna ívilnun eða uppbót á kostnaði við að senda vöruna milli hafna eða staða umhverfis landið«.

Við litum svo á, að með þessu væri gefin skýlaus heimild fyrir landsstjórnina til þess að flytja vörur kostnaðarlaust á hafnarstaði umhverfis landið. Og í þeirri trú, að eftir þessu yrði farið, var tillagan tekin aftur. Að stjórnin líka skildi þetta þannig, er augljóst af því, að í fyrstu ferðinni, sem farin var eftir þinglok, voru vörur sendar án farmgjalds bæði austur og norður á land, eins og hægt er að sanna með reikningum frá þeim tíma.

Hitt skal jeg játa að geti verið rjett, að stjórninni hafi reynst þetta óhagkvæmt í framkvæmdinni, sjerstaklega fyrir þá sök, að kaupmenn gátu notað sjer þetta til að selja vörur hærra verði, er verð landsstjórnarinnar stje um farmgjaldið. En hins vegar var engin þörf á því að láta farmgjaldið koma fram í verðhækkun, heldur falla á landssjóð, eins og eðlileg dýrtíðarhjálp, og færast á »tjónsreikning«. Til þess gefa áður nefnd lög einmitt heimild.

Svör hæstv. stjórnar um þetta virðast mjer eigi alls kostar rjett. Jeg get ekki heldur skilið, að Reykvíkingum hefði sjerstaklega verið íþyngt með því, að þessu væri framfylgt. Það gat eigi snert Reykvíkinga á annan veg en aðra gjaldendur landssjóðs, og þeim er auðvitað jafnskylt og öðrum að bera byrðar þjóðfjelagsins.