10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

127. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Flm. (Matthías Ólafsson):

Það er líkt um þetta frv. og það, sem var til umr. fyrir háttv. deild hjer áðan og vísað var til allsherjarnefndar. Svo er mál með vexti, að kaupmenn utan af landi hafa skrifað kaupmannaráðinu hjer í Reykjavík og farið þess á leit, að hlutast væri til um, að lög væru sett um lokunartíma í sölubúðum í kauptúnum úti um land.

Kaupmannaráðið hjer í Reykjavík áleit sjer ekki fært, sakir ókunnugleika, að dæma um, hvort sami lokunartími gæti átt við á öllum stöðum, en taldi málinu komið í rjett horf, ef heimild væri gefin til að gera samþyktir í þessa átt, eftir því sem við ætti á staðnum. Og eins og allir hljóta að sjá er þetta rjett athugað, því að það er talsvert ólíkt ástatt í bæjum, t. d. hjer á Suðurlandi og á Norðurlandi, og því best, að hver bær hagi sjer eftir sínum kringumstæðum. Jeg hefi orðið við þeim tilmælum kaupmannafjelagsins að flytja þetta frv. hjer á þingi, því að jeg get ekki betur sjeð en að það sje meinlaust gagnvart öllum, en hins vegar til gagns fyrir kaupmannastjettina úti á landi, sem hefir óskað þessa.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta, en jeg býst við, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) álíti, að það beri að athuga frv. í nefnd, og er jeg ekki mótfallinn, að því verði vísað til allsherjarnefndar, að umr. lokinni.