08.09.1917
Neðri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

127. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Frsm. (Einar Arnórsson):

Hjer í deildinni hafa komið fram tvö frv. um líkt efni, annað um lokunartíma sölubúða. hjer í Reykjavík, hitt um lokunartíma sölubúða í öðrum kaupstöðum landsins. Í síðara frv. er heimilað að gera samþyktir um lokunartímann, en í Reykjavík skyldi lokunartími sölubúða vera beinlínis lögbundinn. Nú þótti nefndinni Reykjavík vel geta við sömu kjör unað og aðrir kaupstaðir landsins, og því mun hún ekki afgreiða fyrra frv. fyr en sjeð er fyrir örlög hins síðara. En ef nokkur krefst þess, þá er nefndin fús á að koma fram með álit sitt um Reykjavíkurfrv., og mun þá hiklaust leggja til, að það verði felt.

En frv. á þgskj. 213 álítur nefndin að muni vera meinlaust, og leggur því til, að því verði ljeð samþykki, með nokkrum breytingum. Nefndinni finst nóg, að bæjarstjórn og stjórnarráð fjalli um samþyktirnar, og vill sleppa borgarafundarbákninu, sem um getur í 3. gr. frv. Af þeirri brtt. leiða ýmsar aðrar breytingar á frv. Við það eru brtt. nefndarinnar miðaðar. Ef frv. nær fram að ganga með brtt. nefndarinnar, þá nær það líka til Reykjavíkur, og verður þá óþarft að setja sjerstök lög viðvíkjandi lokunartíma hjer í bænum.

Eins og jeg hefi sagt álítur nefndin frv. meinlaust og leggur til, að það nái fram að ganga.