08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Frsm. fjárhagsnefndar (Halldór Steinsson):

Jeg get ekki fundið neitt hlægilegt við það, þótt till. þessi yrði feld. Háttv. þm. Ak. (M. K.) kvaðst ekki furða sig á því, að jeg væri á móti henni, vegna þeirrar óbeitar, sem læknar hefðu alment á öllum leyndarlyfjum.

Jeg þykist þó ekki hafa gefið neina ástæðu til þeirrar ályktunar í ræðu minni. Jeg taldi elixírnum miklu fremur nokkuð til gildis. Jeg sagði, að hann væri meinlítill og gagnslítill, en það er annað en gagnslaus. Jeg gat þess líka, að þess væru dæmi, að hann kæmi að gagni, ef menn tryðu á hann.

Aðalatriðið í mótbárum mínum var ekki óbeit á lyfinu, heldur hitt, að jeg verð að vera því mótfallinn, að lyf, sem geta spilt heilsu manna, verði seld allri alþýðu hindrunarlaust.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hjelt því fram, að líta bæri á lyf þetta sem hvert annað áfengi, sem óhæft er gert til drykkjar.

En hæpið finst mjer að samþ. till. með það fyrir augum. Enda er það alkunna, að slíkrar vöru er neytt til drykkjar, og tel jeg alls ekki heppilegt að auka tölu þeirra lyfja, sem þannig geta orðið til þess að spilla heilsu manna. Þar að auki er jeg enn þá á sömu skoðun og áður, að þetta stefni á móti anda bannlaganna, og mun jeg því ekki greiða till. atkv. mitt.