11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

131. mál, seðlaupphæð

Benedikt Sveinsson:

Jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði áðan, að þetta mál má ekki fara hjeðan úr deildinni fyr en svo er um hnútana búið, að hagfeldir samningar hafa fengist við bankann, bæði að því er snertir hámark lánsins og vexti af því.

Háttv. frsm. (M. G.) sagði, að verið væri að semja við bankann. Það er ekki nóg. Samningunum verður að vera lokið áður en málið fer hjeðan, enda liggur því ekki svo mjög á.

Þó að bankinn hafi nú orðið að taka stórlán í útlöndum, eins og sagt hefir verið, þá verður ekki annað sjeð af reikningum hans árið sem leið en að hann hafi haft góðan hag af viðskiftunum við íslensku þjóðina.

Hæstv. forsætisráðherra sagði, að ekki væri rjett að setja bankanum strangari skilyrði en áður, þar sem landsstjórnin er upp á hann komin. En það geta ekki kallast ströng skilyrði, þó að bankinn yrði að borga nokkru meira en 2%, svo háir sem vextir eru í landinu. Það væri óhæfilegt að taka ekki hærri vexti, nema stjórninni sje veitt lán með sjerstaklega góðum vaxtakjörum.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) gat þess, að þetta leyfi til Íslandsbanka væri í raun og veru ekki annað en einn liður í stríðsráðstöfunum stjórnarinnar. Ef svo er, sje jeg ekki, hvað er því til fyrirstöðu, að stjórnin taki bankann blátt áfram eignarnámi. Auðvitað myndi það kosta mikið fje, en bankinn er líka mikil eign, og óvíst, að skilyrðin verði betri í annan tíma til að ná bankanum í hendur landsins. Þingið stendur svo að vígi gagnvart bankanum nú, að það þarf ekki að gangast undir neina afarkosti af hans hendi.