16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

131. mál, seðlaupphæð

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg stend upp til að lýsa yfir því, fyrir hönd fjárhagsnefndar, að hún getur ekki fallist á brtt. á þgskj. 431, nema hina fyrstu; á hinar brtt. getur nefndin ekki fallist, vegna upplýsinga þeirra, sem hún hefir fengið hjá landsstjórninni.

Jeg geng út frá því sem gefnu, að bankinn græði á þessari auknu seðlaútgáfu, en sá gróði er naumast eins stór og litið gæti út við fyrstu athugun, því að bankinn þarf að hafa mikið gull til tryggingar, og ef hann setti það gull í umferð, fengi hann sömu vexti fyrir það og seðla. Hagurinn er því að eins af hinum ógulltrygðu seðlum, en auk þess, sem bankinn þarf að greiða 2% af þeim í landssjóð, er nokkur kostnaður annar, sem bankinn hefir, t. d. prentunarkostnaður seðla o. fl. En þótt bankinn græði mikið á þessum rjetti, sá nefndin sjer ekki annað fært en að ganga að frv., með þeirri einu breytingu, sem jeg nefndi áðan. Og jeg skil ekki, að þeir, sem á aukaþinginu í vetur samþyktu seðlaaukning Íslandsbanka með sömu kjörum og nú er gert ráð fyrir, muni greiða atkvæði gegn frv., því að nauðsynin er óneitanlega enn brýnni nú en þá. Jeg tek það þó fram, að nefndin skoðar þetta leyfi að eins einn lið í ófriðarráðstöfununum, en alls eigi til frambúðar, eins og frv. sjálft sýnir.