16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

131. mál, seðlaupphæð

Forsætisráðherra (J. M.):

Það hefir víst enginn talað um, að Íslandsbanki væri í fjárþröng; en fje það, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) taldi upp, að bankinn hefði í vörslum sínum, er alt bundið, því að nú er erfitt með að koma afurðum landsins í peninga, svo að bankinn verður að binda mikið fje, til að hjálpa framleiðendum til að geyma afurðir óseldar til hagkvæmari tíma, og umlíða þá um lán, sem hann hefir veitt þeim til framleiðslunnar. Jeg hefi engu við það að bæta, sem háttv. frsm. (M. G.) sagði, að hjer er að eins um ófriðarráðstafanir að ræða.

Annars mun engin ástæða til að lengja umræður. Þó skal jeg geta þess, að þessi aukni seðlaútgáfurjettur er líka til hagnaðar fyrir Landsbankann, þar sem Íslandsbanki á ókeypis að greiða fyrir viðskiftum hans erlendis.

Stjórnin leit svo á, að óhjákvæmilegt væri að veita bankanum nú þennan aukna seðlaútgáfurjett, hvernig sem annars er á málið litið, og hún taldi ekki rjett að setja honum þrengri kosti en hjer er gert.