08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg ætlaði lítið eitt að minnast á brtt. fjárveitinganefndar við 13. gr. fjárlaganna, lækkunina á póstflutningafjenu. Það vakir fyrir mjer, að það muni kannske vera hæpið að samþykkja lækkunina, því að þótt líta megi á málið eins og háttv. frsm. nefndarinnar (E. P.) tók fram, þá er þess að gæta, að hækkunin er samt ekki mikil frá því sem verið hefir, en hins vegar líklegt, að póstflutningar aukist með landpóstum, og þar af leiðandi þurfi fleiri hesta og meiri tilkostnað.

Jeg vek að eins athygli á þessu vegna þess, að mjer fyrir mitt leyti finst hæpið að samþykkja þessa brtt., því að það mun koma á daginn, að ekki veiti af þessu fje.

Till. nefndarinnar á þgskj 880, undir tölulið 4, get jeg verið meðmæltur, og það því fremur, sem þessi háttv. deild hefir lækkað næsta liðinn á undan, orðabókarstyrkinn. En þessi till. miðar til þess að greiða götu málsins og auka þann forða, sem vjer eigum til geymslu tungu vorrar.

Fyrir 5. tölulið á þgskj. 880 vil jeg láta nefndinni í ljós þakklæti mitt. Greinin verður á þann veg miklu skýrari og formið á henni aðgengilegra en áður var.

Þá vildi jeg fara nokkrum orðum um brtt. mína á þgskj. 889. Jeg veit, að mörgum muni þykja hækkunin nokkuð mikil, frá því sem hún var í núgildandi fjárlögum, að menn muni furða sig á, að hækkað sje enn um 1300 kr. Fyrir fjárveitinganefnd hefir legið skýrsla frá póstmeistaranum, sem fer nokkru lengra en jeg hefi farið hjer. Lýsing póstmeistara sýnir ljóslega, hve erfið kjör póstmanna hjer hafi verið; þeir hafi mist heilsuna og orðið svo að hröklast burt, störf þeirra orðið svo mikil, að það sje ekki tiltök, að þeir geti leitað sjer aukaatvinnu annarsstaðar. Jeg vil enn fremur benda á það, að starfskraftar þeirra þriggja elstu póstmanna, sem póstmeistarinn hefir nú, væri ekki hægt að fá aftur með jafnri mannatölu, ef þeirra misti við. Til þess myndi þurfa í byrjun minst helmingi fleiri menn, svo að það væri fjárhagslegur skaði að missa þá. Það er ætlast til, að þessi viðbót lendi aðallega hjá þremur elstu póstmönnunum. Þorleifur Jónsson, sem er þeirra elstur, á að fá 3000 kr., en hinir tveir, Páll Steingrímsson og Óli Blöndal, 2800 krónur hvor. Þá eru eftir 200 krónur, sem ætlast er til að gangi til tveggja yngri manna við póstafgreiðsluna, sem ekki hafa eins langan vinnutíma.

Jeg held, að póstmeistarinn sje alþektur að því að vera mjög varkár maður í peningaefnum og mjög ant um hag póststofunnar, og því megi vænta þess, að það sje ekki að ástæðulausu farið fram á þessa hækkun, heldur sje það af því, að mönnunum sje ekki lífvænt með þeim launum, sem þeir hafa, en á hina hliðina áreiðanlegt, að póststofan hefir best af því, að þessi hækkun fáist.

Jeg mun svo ekki frekar skýra frá afstöðu minni til sjerstakra till. einstakra þingmanna, nema að eins drepa lítið eitt á brtt. á þgskj. 882. Jeg þykist skilja, að hún sje nú í þessu formi komin með tilliti til þess, sem jeg benti áður á, og ætti að verða þess valdandi, að menn fylgdu henni. Þetta, sem hjer ræðir um, er hjálparstyrkur í eitt skifti fyrir öll, og það sjest best á því, eins og hv. framsm. (E. P.) tók fram, að upphæðin er sett á eitt ár og því ekki verið að hugsa um framhaldsstyrk frá fjárhagstímabili til fjárhagstímabils.

Jeg vænti þess, að hv. deild sýni það við atkvgr., að hún vilji hlynna að því, að póstmeistarinn hjerna geti haldið starfsmönnum sínum, þeim er nú eru, með því að gera launakjör þeirra viðunandi.