08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Kristinn Daníelsson:

Jeg hefi komið með þrjár brtt., og er ekki mikið um þær að segja. Tvær þeirra er mönnum kunnugt um, því að jeg bar þær áður fram við 2, umr. Jeg vil að eins leyfa mjer, að láta í ljós þakklæti mitt til hv. framsm. nefndarinnar (E. P.) fyrir hlýleg ummæli hans um þær.

Þá vildi jeg minnast á till. mína um læknishjálp til Kjósarhreppsbúa. Jeg breytti henni í það form, sem hún er nú komin í, með því að mjer skildist svo, að hún hefði þá meira fylgi hjá nefndinni og hv. deild.

Sama er að segja um brtt. á þgskj. 882, styrkinn til Jóns Helgasonar. Jeg breytti henni líka í þetta form eftir bendingu hv. nefndar- og deildarmanna. Þessi styrkur verður þá að eins fyrra árið, til þess að sýna, að þetta eigi ekki að vera árleg greiðsla, eins og ef til vill hefði mátt skilja af till., eins og hún lá fyrir síðast.

Svo er jeg með nýja brtt. á þgskj. 881. Það er um styrk til stórstúku Goodtemplara á Íslandi, 1000 kr. hvort árið. Jeg hefi litið svo á, að það væri sjálfsagt, að þessi brtt. kæmi hjer fram, því að það myndi í raun og veru alls ekki vera tilgangur þingsins að svifta stórstúkuna þessum styrk, sem hún hefir nú notið um margra ára bil, enda stóð þessi styrkur í tveim útgáfum fjárlaganna á þessu þingi í Nd., en við 3. umr. þar komst — jeg veit ekki fyrir hvaða tilvik — þessi breyting að, sem hv. deild er kunn, og hún að nokkru leyti leiðrjetti við síðustu umr. málsins. Svo sem kunnugt er var breytingin í því fólgin, að í stað stórstúkunnar var settur sá maður, sem hefir haft mest starf á hendi fyrir regluna hjer á landi. En eins og jeg sagði get jeg ekki ímyndað mjer, að það hafi verið tilgangur þingsins að svifta þetta heiðursfjelag þeim styrk, sem það um mörg ár hefir notið. Jeg hygg, að allir viðurkenni, hve miklu góðu það hefir komið til vegar í aðaláhugamáli sínu, þótt sumir vilji í þeim efnum fara aðrar leiðir en það. Jeg hygg, að allir kannist við það góða, sem það hefir gert, þótt það hafi unnið það eftir sínum reglum. En fyrir utan aðaltakmark sitt, útrýming áfengisbölsins, hefir fjelag þetta altaf haft með höndum mikið mannúðar- og menningarstarf, sem jeg skal þó ekki fara út í að lýsa að sinni. Sjálfur hefi jeg að vísu aldrei verið templar, en þó haft nóg tækifæri til þess að kynnast og fylgjast með starfsemi fjelags þessa.

Að fara nú að svifta stórstúkuna þessum styrk held jeg að ekki geti talist maklegt nje nein ástæða til þess, því að söm er þörfin og sömu verðleikarnir eins og áður; er þetta hvorttveggja vegna þess, að hún heldur enn þá uppi fullu starfi sínu í öllum greinum þess, og ef mönnum kynni að finnast hún hafa nokkuð dregið úr því um sinn, fyrir bannlögin, þá hygg jeg, að menn hljóti að játa, að einnig að því er til þeirra tekur hafi reglan enn þá eðlilega verkefni fyrir höndum.

Þetta er öllum svo kunnugt mál, að jeg þarf ekki að þreyta menn á lengri ræðu; jeg hefi kann ske sagt óþarflega mikið, en vona samt, að hv. deild taki þessu máli vel og drengilega.