22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

146. mál, almenn hjálp

Gísli Sveinsson:

Án þess að jeg ætli að gerræða mál þetta nú, og án þess að jeg ætli mjer þá dul að geta komið með nokkur þau ráð, er hin mikla og merkilega bjargráðanefnd eða meiri hluti hennar muni vilja taka til greina, þá vil jeg þó beina þeirri spurningu til háttv. nefndar, hvort hún hafi hugsað sjer nokkurt ráð til bjargar, ef bráða neyð ber að höndum, bráðari en svo, að hjálpin komi í tæka tíð eftir tillögum þessa frv.

Það var fundið að frv. því, sem jeg flutti, og var hjer til umræðu á dögunum, að eftir því væri svo seinlegt að ná í nauðsynjahjálp, að fólkið gæti soltið í hel, áður en til framkvæmda kæmi. En jeg sje ekki betur en að þetta frv. sje að minsta kosti með sama markinu brent, og sje ekki betur en að nauðstaddir menn geti verið farnir veg allrar veraldar áður en hjálp kemur, eftir ákvæðum þess, áður en sveitarstjórn hefir brætt það með sjer, hvort hún eigi að taka lán eða ekki, áður en lán er afgr. hjá landsstjórninni, og áður en lánsfjeð er komið í hendur sveitarstjórnar. Sama er að segja um það, að oflangur tími mun að jafnaði ganga til þess að koma atvinnufyrirtækjum handa þurfalingum í gang, ef bráðrar hjálpar er þörf. Það þyrftu því að minsta kosti að vera til einhver ákvæði um fljótvirka bráðabirgðahjálp, en slík ákvæði vantar í frv. þetta.

Mundi háttv. nefnd vera ófáanleg til að taka þetta atriði til íhugunar?