22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

146. mál, almenn hjálp

Gísli Sveinsson:

Mjer dettur ekki í hug að fara í langar deilur eða orðahnippingar við háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), því að þaðan er ekki við öðru að búast en brigslyrðum út í bláinn og dylgjum, í stað röksemda, eins og kunnugt er frá fyrri umr. þessa máls.

Háttv. þm. (Þorst. J.) lætur sjer sæma að varpa því fram, að jeg hafi komið með athugasemdir mínar til þess að leggja stein í veg fyrir frv. Það þarf alveg sjerstakan hugsunarhátt, sem hlýtur að vera sjereign háttv. þm. N.-M. (Þorst. J.) hjer í deild, að komast að þeirri niðurstöðu, að þeir vilji spilla málum, sem leggja sinn skerf til, að þau sjeu athuguð sem best. Athugasemd mín átti að eins að vera, og var, hógvær bending til háttv. nefndar. Jeg var að benda á, að frá sjónarmiði þeirra manna, sem þótti hjálpin mundu koma ofseint eftir tillögum í mínu frv., og þar á meðal var háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) og hans fjelagar, þá mundi hún og geta komið ofseint eftir þessu frv., því að ekki er sá vegur, sem það bendir á, fljótfarnari en minn vegur mundi reynast. Háttv. frsm. (Þorst. J.) taldi nú öllu vel borgið, því að sveitin mundi taka þá upp á sína arma, sem hjálparþurfar yrðu áður en lögin væru komin í kring og hjálp eftir þeim fengin. Ef það hefir verið satt, sem borið var fram um daginn, þegar um frv. mitt var að ræða, að sveitarstjórnir mundu verða ofseinar á sjer með að ná hjálp handa þeim, sem þyrftu, þá á það ekki síður við þetta. Það má gera ráð fyrir, að sveitarstjórnir fari ekki að leita lána fyr en í fulla hnefana, ekki fyr en neyðin ber að dyrum, og sú hjálp getur hæglega komið ofseint.

Háttv. frsm. (Þorst. J.) gerir ráð fyrir, að þar, sem bráða hjálp þurfi, þá muni þurfalingarnir leita til sveitarstjórnar. Einmitt það. Hjer kemur það fram, að hann ætlast til, að þessir menn neyðist til að fá sveitarstyrk; vel er nú sjeð fyrir sjálfstæði manna.

Þótt landsstjórnin flýti öllu sem mest, eftir að málið er komið til hennar, getur svo farið — og fyrir því gerir líka háttv. frsm. (Þorst. J.) ráð — að sumir þurfi hjálpina áður en fjárveitingin kemur frá stjórninni, og þá eiga þeir að fá hana sem sveitarstyrk, en hinir, sem seinna þarfnast hennar, segjum mánuði seinna, fá hana sem lán, þótt sömu ástæður liggi fyrir. Þetta er svo hróplegt misrjetti, að það má ekki eiga sjer stað.