22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

146. mál, almenn hjálp

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki betur sjeð en að mál þetta sje komið í óefni. Það var ákaflega leitt, að bjargráðanefndir í báðum deildum skyldu ekki geta komið sjer saman um eitthvað það, sem þær hefðu svo fylgt fram í þinginu. Það er lífsspursmál, þegar um jafnþýðingarmikil vandamál er að ræða, að allir taki höndum saman og láti hvern minni háttar skoðanamun þoka fyrir alþjóðarheill. Þegar jeg átti tal við háttv. nefnd, gat jeg þess, að líklega mundi rjettast, að stjórninni væri veitt heimild til að selja vörur eitthvað undir verði, ef á þyrfti að halda; það mundi reynast besta hjálpin. Það mun að vísu hafa verið farið helst til langt hjá háttv. minni hluta, en áreiðanlega virðist mjer hann vera á rjettri leið. Það kölluðu aðrar annir að mjer, svo að jeg varð ofseinn til að taka til máls, þegar dýrtíðarmálin voru hjer síðast til umræðu, svo að jeg gat þá ekki látið skoðun mína í ljós. En jeg vil nú biðja háttv. nefnd að taka málið til nýrrar íhugunar, og vita, hvort ekki er hægt að finna einhvern samkomulagsgrundvöll. Málið er afarvandasamt; menn eiga svo erfitt með að spá í eyðurnar, og ástandið er svo breytilegt, að ráðstafanir, sem gerðar eru í dag, eiga má ske ekki við á morgun. Af þessum ástæðum var það, að stjórnin kom ekki fram með neinar ákveðnar tillögur; hún taldi það rjettara að geyma að ráða málinu til lykta þangað til um þingtímann og haga ráðstöfunum eftir útlitinu þá. En með því að ekki er unt að sjá fyrir, hvernig fara muni framvegis, nema að nokkru leyti, þá datt mjer í hug, að þingið veitti stjórninni nokkuð víðtæka heimild til að haga dýrtíðarráðstöfunum eftir því, sem augnabliksþörf krefur. Það gæti og, komið til mála, að þingið skipaði nefnd til að vera stjórninni til aðstoðar við ráðstafanir þessar.

Þetta vildi jeg mega biðja hv. nefnd að taka til íhugunar.

Jeg er samdóma háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um, að þótt þetta frv. bæti að sumu leyti úr, þá sje það ekki fullnægjandi, og hætt sje við, að sú hjálp, sem það gerir ráð fyrir að veitt sje, muni reynast ýmsum ónóg.