22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

146. mál, almenn hjálp

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg var því miður ekki inni, er háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) hjelt ræðu sína, en jeg heyri sagt, að hann hafi látið í ljós, að jeg hafi fallist á þetta frv., er það var til umr. í háttv. bjargráðanefnd. Það er nú að sumu leyti rjett, því að jeg mun hafa sagt sem svo, að það, að útvega mönnum vinnu, gæti verið gott út af fyrir sig, en að það væri ekki nægilegt, og að auk þess gæti verið ástæða til að veita stjórninni heimild til að selja 1 eða 2 vörutegundir undir verði, eins og víða er gert erlendis. Þetta hygg jeg að jeg hafi sagt. Það má vera, að þörf verði á því að greiða fyrir lánum eða veita lán handa sveitarfjelögum. En sem sagt, þetta tvent vakti aðallega fyrir mjer, að útvega mönnum atvinnu og að selja eitthvað af vörum undir verði, en vera má, að svo fari, að þessir tveir vegir yrðu ekki einhlítir, svo að líka þyrfti að veita sveitarfjelögum lán.